Mannréttindi brotin á fimm ára dreng

Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Okk­ur hér í þess­um ræðustól er tíðrætt um mann­rétt­inda­brot sem eiga sér stað úti í hinum stóra heimi,“ sagði Ragn­heiður Rík­arðsdótt­ir, þing­flokks­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, und­ir liðnum störf þings­ins á Alþingi í dag. Hún beindi sjón­um að mann­rétt­inda­broti sem verið er að fremja á ís­lenskri fjöl­skyldu.

„Akkúrat í þess­um töluðu orðum er verið að brjóta mann­rétt­indi á litl­um fimm ára dreng sem að ákveðið hef­ur verið að senda til norskr­ar barna­vernd­ar­nefnd­ar vegna þess að móðir hans, ung kona, átti við áfeng­is­vanda­mál að stríða meðan hún bjó í Nor­egi,“ sagði Ragn­heiður og bætti við að móðirin hefði hafið meðferð, væri edrú og hefði flutt til Íslands þegar ljóst var að taka ætti barnið af henni.

Móðirin á fjöl­skyldu hér á landi en vegna þess að hún var svipt for­ræði yfir drengn­um í Nor­egi og faðir­inn býr í Dan­mörku og hef­ur eng­in af­skipti af þeim, „þá á núna að taka þenn­an fimm ára dreng og flytja hann til Nor­egs.“

Drengn­um verði komið fyr­ir á fóst­ur­heim­ili á meðan móðirin vinni í sín­um mál­um. „Þetta þýðir að þessi fimm ára dreng­ur verður í 14 ár á fóst­ur­heim­ili í Nor­egi. Móðir hans fær að hitta hann tvisvar á ári und­ir eft­ir­liti,“ sagði Ragn­heiður.

„Við töl­um um mann­rétt­inda­brot á pólsk­um kon­um og töl­um um mann­rétt­inda­brot á fólki í Sýr­landi. Fyr­ir mig sem þing­mann, fyr­ir mig sem móður og ömmu þá er þetta mann­rétt­inda­brot sem ég get ekki sætt mig við,“ sagði Ragn­heiður og skoraði á inn­an­rík­is­ráðherra og barna­vernd­ar­stofu að ganga taf­ar­laust í málið og „koma í veg fyr­ir að þessi litli fimm ára dreng­ur verði rif­inn frá móður sinni og og fjöl­skyldu hér á Íslandi og komið í fóst­ur í Nor­egi,“ sagði Ragn­heiður og fjöldi þing­manna tók und­ir með henni í lok­in. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka