Samfélagsmiðlar voru upphaflega tækifæri fyrir almenning til að láta ljós sitt skína í þjóðfélagsumræðunni, tæki til að berjast gegn valdi og lýðræðistækifæri til að eiga í samskiptum við stofnanir og annað fólk án hindrana. En svo gerðist eitthvað og stundum getur þessi opna umræða hreinlega verið dálítið ógeðsleg og fréttamiðlar og stofnanir eru ekki lengur jafn hrifin af því að hafa opið fyrir nafnlaus skrif. Þetta sagði Baldvin Þór Bergsson, fréttamaður og háskólakennari, á morgunfundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ og Félags forstöðumanna ríkisstofnana í dag.
Sagði Baldvin að tjáskipti á netinu lengi byggst á nafnleysi, en það gæfi þeim rödd sem ekki hafi rödd og verndi fólk sem megi ekki tjá sig. Þá eigi það að setja fókus á málefnið en ekki ræðumanninn. „Þetta er falleg hugsjón, lýðræðisleg hugsjón,“ sagði Baldvin, en spurði svo hvort hún virkaði í raun. Mikil gagnrýni hafi í raun komið fram á nafnleysi og margir lokað fyrir slíka möguleika á vefmiðlum. Sagði Baldvin að raunin væri sú að þegar nafnleysi væri notað væri þróunin sú að þrír hópar hættu að taka þátt í umræðunni. Það væru konur, fræðimenn og innflytjendur. „Viljum við umhverfi þar sem þrír svona stórir hópar detta úr umræðunni?“ spurði hann á fundinum.
Vísaði Baldvin til þess að oft væri talað um að allir séu jafnir á samfélagsmiðlum en það sé ekki raunin. Þá hafi margir fengið þá hugmynd að samfélagsmiðlar væru „tæki til að góðu kallarnir myndu vinna“ og vísaði hann þar til þess hvernig samfélagsmiðlar hafi birst fólki í kringum arabíska vorið árið 2010. Þetta væri þó ekki staðan í dag og mikið af þeirri umræðu og herferðum sem spretti upp á netinu komi ekki frá einum einstaklingi eða sé sjálfsprottin, heldur sé um að ræða vel skipulagðar herferðir hagsmunaaðila. Nefndi hann sem dæmi mikla umræðu sem hafi komið upp þegar starfsmenn skyndibitastaða í Bandaríkjunum hafi tjáð sig um launakjör sín og krafist hærri tekna. Það hafi ekki verið herferð sem óvænt hafi komið upp, heldur var það vel skipulögð herferð stéttafélaga.
Á fundinum var fjallað um stofnanir ríkisins í nýju fjölmiðlaumhverfi og fór Baldvin yfir þá þróun sem hefur átt sér stað á samfélagsmiðlum og notkun stofnana og hagsmunaaðila þar. Sagði hann að þrátt fyrir þessa hugmynd um að allir hefðu aðgang að öllum á samfélagsmiðlum væri raunin sú að við hefðum ekki öll jafn sterka rödd á netinu. „Það skiptir máli hver er að hlusta, ekki hver er að tala,“ sagði hann.
Benti Baldvin á að með netinu og samfélagsmiðlum hafi allt í einu reiði kallinn á kaffistofunni fengið vettvang til að láta reiði sína ná til stærri hóps. Það væru jafnvel fjölmargir á sömu skoðun og hann í samfélaginu. Þar hætti stofnunum oft til þess að horfa til þess neikvæða þó raunin væri sú að þetta væri lítill en hávær hópur. Sagði hann að þótt samskiptin væru fræðilega opin fyrir alla væru þau í raun mjög takmörkuð.
Þetta þyrftu stofnanir og fleiri að hafa í huga þegar upp kæmi gagnrýni, þó það séu 50-100 manns á Facebook að segja eitthvað ákveðið, þá er það í raun ekkert svo risastór hópur. Auðvitað þyrfti að hlusta á slíkt, en það þyrfti að skoða það í samhengi við heildarfjölda þeirra sem notuðu þjónustu og fleiri atriða.
Þá sagði Baldvin einnig að þegar stofnanir notuðu samfélagsmiðla þyrfti að hafa í huga að þetta væri ekki aðeins vettvangur til að koma á framfæri góðum fréttum og upplýsingum, heldur væri þetta gagnvirkur miðill þar sem búast þyrfti við því að svara notendum. Þá gætu jafnvel komið ábendingar eða svör frá fólki á þessum miðli sem væri vert að hlusta á. Hann sagði stjórnmálaflokka oft hafa fallið í þá gryfju að halda að samfélagsmiðlar væru aðeins vettvangur til að senda skilaboð og þegar mótlæti kæmi hafi ekki verið búist við svari. Þetta þyrftu stofnanir að hafa hugfast.