Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna felldu í dag tillögu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina um að undanþiggja Hjálpræðisherinn byggingarréttargjaldi vegna nýbyggingar samtakanna á lóð við Suðurlandsbraut 72 til 74 en Hjálpræðishernum var úthlutuð lóðin á fundinum í dag.
Munu samtökin því greiða u.þ.b. 22,5 milljónir króna í gatnagerðargjald og tæpar 22 milljónir króna í byggingarréttargjald. Alls rúmar 42 milljónir króna til Reykjavíkurborgar.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kallar afgreiðslu meirihlutans í borginni „kalda kveðju“ til Hjálpræðishersins eftir allt það starf sem hann hefur unnið. Hann segir borgina hafa svigrúm til að túlka ákvæði um úthlutun lóða án endurgjalds til trúfélaga, en Félagi múslima hafi verið úthlutuð lóð án endurgjalds árið 2013 og í því ljósi sé það gagnrýnivert að trúfélögum sé mismunað með þessum hætti.
„Mér finnst afgreiðsla meirihlutans skjóta skökku við. Þarna kemur söfnuður, Hjálpræðisherinn, sem er líka trúfélag, með starfsemi í borginni í yfir 120 ár og hefur sinnt gríðarlega mikilvægu hlutverki síðan hann kom á þarsíðustu öld þegar Ísland var fátækasta ríkið í Vestur-Evrópu,“ segir Kjartan. „Þeir eru frumkvöðlar í hjálparstarfi sem buðu upp á fjölbreytta félagsaðstoð áður en bærinn gerði það og hafa gert allar götur síðan. Borgin stendur í þakkarskuld við Hjálpræðisherinn.“
Í bókun meirihlutans segir að lóðaúthlutanir til trúfélaga undir tilbeiðslustarf hafi farið fram á jafnræðisgrunni þar sem ekki sé hægt að mismuna trúfélögum í þeim efnum. „Starfsemi Hjálpræðishersins er annars eðlis og að auki hefur félagið ekki farið fram á niðurfellingu byggingarréttargjalds, heldur hafa samningar náðst um eðlilegt endurgjald sem allir aðilar eru sáttir við,“ segir í bókun meirihlutans.
Kjartan segir að tillaga Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina hafi verið lögð fram að viðhöfðu samráði við forsvarsmenn Hjálpræðishersins sem hann segir vera hógvær samtök. „Það minnsta sem við gætum gert er að sleppa þeim við byggingarréttargjaldið. En það var ekki stemning fyrir því,“ segir Kjartan og bætir við að félagið sé rekið án hagnaðar og því hefðu samtökin getað nýtt peninginn til góðra verka.