„Áfellisdómur yfir vinnubrögðum lögreglu“

Björgvini voru dæmdar 120 þúsund krónur í miskabætur fyrir líkamsleit …
Björgvini voru dæmdar 120 þúsund krónur í miskabætur fyrir líkamsleit sem gerð var á honum á Þjóðhátíð í Eyjum í fyrra. Ljós­mynd/Á​sta Sif

Íslenska ríkinu hefur verið gert að greiða Björgvini Mýrdal 120 þúsund krónur í miskabætur fyrir líkamsleit sem gerð var á honum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum síðasta sumar. Hann hefur ekki ákveðið hvort hann áfrýi málinu til Hæstaréttar en segir að sér þætti það furðulegt ef ríkið áfrýjaði ekki sjálft.

„Annaðhvort nýturðu friðhelgi einkalífs eða ekki,“ segir Björgvin. „Ríkið hlýtur að vilja fá það á hreint hvort lögregla starfi samkvæmt lögum.“

Frétt mbl.is: Skráðu stjórnmálaskoðanir við handtöku

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í málinu í dag. Í dómnum segir að fíkniefnahundur hafi gefið í skyn að Björgvin væri með fíkniefni á sér. Maðurinn synjaði beiðni lögreglu um að fá að leita á honum og var hann í kjölfarið færður á lögreglustöð þar sem líkamsleit var gerð.

Engin fíkniefni fundust á Björgvini og krafðist hann milljón króna í miskabætur. Í kærunni vísaði Björgvin einnig til þess að lögregla hefði skrásett sérstaklega aðild hans að Snarrótinni, samtökum áhugafólks um borgaraleg réttindi, í dagbókarfærslu.

Leitað var á Björgvini eftir að fíkniefnahundur lögreglunnar merkti hann …
Leitað var á Björgvini eftir að fíkniefnahundur lögreglunnar merkti hann um hábjartan dag. Hann neitaði lögreglu um að leita á sér og var í kjölfarið handtekinn. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta er áfellisdómur yfir þessum vinnubrögðum lögreglunnar,“ segir Björgvin í samtali við mbl.is. „Þegar maður rýnir í þetta sér maður að það stendur ekki steinn yfir steini í þessu og þetta varpar ljósi á þau vinnubrögð sem lögreglan stundar.“

Björgvin er ritari Snarrótarinnar sem hefur staðið fyrir fræðslu um réttindi borgara gagnvart lögreglu, m.a. á útihátíðum á borð við Secret Solstice og Þjóðhátíð.

„Að þeir geti sagt að hundurinn hafi merkt mig er alveg með ólíkindum. Það er afsökun sem þeir beita fyrir sig til að réttlæta þessar aðgerðir,“ segir Björgvin og bætir við að lögreglan hafi haft afskipti af sér um hábjartan dag. Þá segir hann lögreglu hafa borið fyrir sig að hún væri að þessu „fyrir börnin“. „Þeir mega ekki leita á fólki nema að fá samþykki fyrir því. En það er mjög undarlegt að ef þú neitar þeim um samþykki þá er kominn rökstuddur grunur um að þú sért með eitthvað. Það nær engri átt.“

Björgvin telur upp mörg atriði sem setja megi út á við aðferðir lögreglu, m.a. að lögregla beri fyrir sig 60. gr. stjórnarskrár um að hlýða beri lögreglu sem stangist á við 71. gr. um friðhelgi einkalífs. Þá segist hann ekki viss um að það hafi verið fíkniefnahundur sem merkti hann og það sé slæmt að lögregla skrái og safni upplýsingum um félagaaðild borgara.

Að sögn Björgvins eru borgaraleg réttindi grunnurinn að siðmenntuðum samfélögum. Það skipti máli að þau séu virt, ekki bara hjá sumum heldur hjá þeim sem þurfa mest á því að halda. Hann segir þar að lögregla hafi beint spjótum sínum að ungu fólki á tónlistarhátíðum á undanförnum árum sem hafi í för með sér þær afleiðingar að hátíðargestir taki frekar sterkari efni í meira magni áður en þeir fari inn á svæðið, til að koma í veg fyrir að verða teknir með efnin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert