Hámarksgreiðsla í fæðingarorlofi hækkar í 500.000 kr. á mánuði

Tölur sýna að með skerðingu hámarksfjárhæðarinnar fækkaði þeim feðrum jafnt …
Tölur sýna að með skerðingu hámarksfjárhæðarinnar fækkaði þeim feðrum jafnt og þétt sem nýttu sér rétt til fæðingarorlofs. AFP

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í dag tillögu Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem felur í sér hækkun hámarksgreiðslu í fæðingarorlofi úr 370.000 kr. á mánuði í 500.000 kr. á mánuði. Fæðingarstyrkur og lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka einnig. Gildistaka breytinganna miðast við 15. október.

Frétt mbl.is: Fæðingartíðnin í sögulegu lágmarki

Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að lög um fæðingar- og foreldraorlof gera ráð fyrir tekjutengdum greiðslum úr fæðingarorlofssjóði þegar foreldrar taka fæðingarorlof, en greiðslurnar verða aldrei hærri en nemur ákveðinni hámarksfjárhæð. Hámarksgreiðslan var ítrekað lækkuð í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og urðu lægstar 300.000 kr. á mánuði. Þann 1. janúar 2014 var hámarksgreiðslan hækkuð í 370.000 kr. og hefur hún verið óbreytt síðan.

„Tölur sýna að með skerðingu hámarksfjárhæðarinnar fækkaði þeim feðrum jafnt og þétt sem nýttu sér rétt til fæðingarorlofs og var það meðal umfjöllunarefna starfshóps félags- og húsnæðismálaráðherra sem skilaði ráðherra tillögum um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum í mars síðastliðnum. Þar var áhersla meðal annars lögð á að hækka hámarksgreiðsluna til að draga úr tekjumissi fjölskyldna og gera foreldrum betur kleift að fullnýta rétt sinn til fæðingarorlofs,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins. 

Í tilkynningunni er haft eftir Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, að afar ánægjulegt sé að geta ráðist í þessa hækkun núna. Í ríkisfjármálaáætlun áranna 2016–2019 sé gert ráð fyrir að auka við einum milljarði króna til fæðingarorlofs á árunum 2017–2018 og eins hafi ákveðið svigrúm skapast þar sem greiðslur fæðingarorlofs og fæðingarstyrkja á þessu ári verði nokkuð innan heimilda.

Kveðið verður á um hækkun fæðingarorlofs, fæðingarstyrks og lágmarksgreiðslu í fæðingarorlofi með reglugerð. Breytingarnar munu taka gildi 15. október næstkomandi vegna foreldra barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 15. október 2016 eða síðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert