Sverðið verður sýnt í einn dag

Sverðið sem fannst í landi Ytri-Ása er frá tíundu öld …
Sverðið sem fannst í landi Ytri-Ása er frá tíundu öld og verður til sýnis í Þjóðminjasafninu á sunnudag. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Sverð frá tíundu öld, sem fannst í landi Ytri-Ása í Skaftafellssýslu í síðasta mánuði verður haft til sýnis fyrir almenning í Þjóðminjasafninu núna á sunnudag, ásamt spjótinu og hnífnum sem fundust um síðustu helgi í kumli með mannabeinum sem talinn eru tilheyra eiganda sverðsins.

Sverðafundurinn hefur vakið mikla athygli og margir hafa viljað vita hvenær sverðið verði sýnilegt almenningi. Anna Rut Guðmundsdóttir, kynningafulltrúi Þjóðminjasafnsins, segir Þjóðminjasafnið og Minjastofnun vilja bregðast við þessum óskum með því að hafa sverðið til sýnis í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins frá klukkan 13-17.

„Sverðið er viðkvæmt og getur ekki verið á sýningu, en að áður en við förum að hreinsa það betur og rannsaka þá ætlum við að gefa fólki tækifæri á að sjá það.“ segir hún.

„Það verða fornleifafræðingar og forverðir á staðnum sem geta svarað spurningum og það verða örugglega margir sem munu koma til að skoða.“ Enn er hins vegar unnið að því að þurrka beinin sem fundust í kumlinu og verða þau því ekki með á sýningunni.

Spjótið var beygt fyrir greftrunina

Mjöll Snæsdóttir og Guðrún Alda Gísladóttir fornleifafræðingar á Fornleifastofnun Íslands voru að rannsaka járnmunina sem fundust í kumlinu ásamt sverðinu þegar mbl.is hafði samband nú í morgun. Guðrún Alda segir rannsókn á mununum vera á algjöru frumstigi.

„Við erum núna að beita svonefndri gerðfræði þar sem við berum gripina saman við gripi frá sama tímabili og erum að reyna að finna þeim stað innan víkingaaldarinnar út frá formi þeirra og útliti,“ segir hún.

Mjöll segir að með þessu sé verið að skoða hvort lögun munanna og útlit bæti einhverju það sem nú þegar er vitað. „Það er ekki víst að það verði voðalega mikið, því þeir eru búnir að liggja lengi í jörðu,“ segir hún. Einhverjir kunni því að verða fyrir vonbrigðum með hversu ryðgaðir gripirnir eru. „Varðveislan er  samt merkilega góð, þó mönnum finnst það kannski ekki við fyrstu sýn.“

Guðrún Alda segir segir athyglisvert að spjótið hafi verið beygt, sem sjáist stundum á gripum frá þessu tímabili. „Þetta er meira þekkt erlendis, en hefur þó líka sést á gripum hér á landi,“ segir Mjöll. Þetta virðist hafa verið gert í einhverjum tilfellum þegar gripir hafa farið í gröf með fólki. „Þá er eins og þeir séu í raun drepnir líka, með því að eyðileggja þá.“  

Guðrún Alda bætir við að dæmi séu um sverð sem hafi verið brotin saman tvöföld. „Þetta þekkist í gröfum frá ýmsum tímum frá Norðurlöndum, Englandi og svo líka hér og fundurinn á Ytri-Ásum er óvenjugott dæmi um einhverja hefð sem hefur verið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert