Ummæli Halldórs „gersamlega fráleit“

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir ummæli Halldórs Auðars Svanssonar, oddvita Pírata í Reykjavík, um að minnihlutinn hefði „vísvitandi daðrað við múslimaandúð“ með því að benda á ólík kjör tveggja trúfélaga við úthlutun lóða við Suðurlandsbraut, vera með ólíkindum.

Hann segir það gersamlega fráleitt að saka minnihlutann um daður við múslimaandúð með því að benda á misræmið við lóðaúthlutun.

Frétt mbl.is: Vísisvitandi daður við múslimaandúð

„Það er ekkert óeðlilegt við að taka dæmi um lóðaúthlutun á sama stað, og í þokkabót nýjasta dæmið,“ segir Kjartan.

Halldór Auðar lét ummælin falla í samtali við mbl.is í kjölfar bókunar fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina í borgarstjórn. Þar var ákvörðun meirihlutans um að hafna tillögu minnihlutans um að fella niður byggingarréttargjald til Hjálpræðishersins vegna nýbyggingar samtakanna við Suðurlandsbraut hörmuð.

Frétt mbl.is: „Köld kveðja til Hjálpræðishersins“

Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata í Reykjavík.
Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata í Reykjavík. mbl.is

Fulltrúar minnihlutans bentu á að Félag múslima hefði fengið felld niður byggingarréttargjöld og gatnagerðargjöld við lóðaúthlutun 2013, sem Hjálpræðishernum hefur verið gert að greiða að fullu. Nema gjöldin alls rúmum 44 milljónum króna. Fjallað var um málið í borgarstjórn í gær.

„Reykjavíkurborg mun innheimta gjöld til Hjálpræðishersins en engin gjöld vegna lóðar til Félags múslima. Það að við skyldum benda á þetta er ekki vegna þess að við erum á móti múslimum, síður en svo, heldur vegna þess að dæmin eru sambærileg. Lóðirnar eru hlið við hlið og lóðaúthlutunin til Félags múslima er nýjasta dæmið um lóðaúthlutun til trúfélaga,“ segir Kjartan.

Ekki bara lóð á sama stað heldur einnig nýjasta dæmið

Kjartan segir menn komna á varhugaverðan stað ef viðbrögð kjörinna fulltrúa séu með þessum hætti þegar þeir eru ósammála um tiltekin mál. „Ef við hefðum farið fleiri ár aftur í tímann hefði verið hægt að nefna dæmi um lóðaúthlutanir sem Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í að samþykkja,“ segir Kjartan og nefnir t.d. Ásatrúarfélagið, Rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna og Búddistafélagið.

Herkastalinn hefur verið seldur og mun Hjálpræðisherinn flytja höfuðstöðvar sínar …
Herkastalinn hefur verið seldur og mun Hjálpræðisherinn flytja höfuðstöðvar sínar úr núverandi húsnæði að Suðurgötu í nýjar höfuðstöðvar að Suðurlandsbraut. mbl.is/Árni Sæberg

„Maður veltir fyrir sér, miðað við hugsanagang Halldórs, að ef maður hefði nefnt eitthvað þessara trúfélaga í staðinn, eða jafnvel þau öll, þá hefði Halldór líklega sagt að við værum að ala á andúð gegn þessum hópum. Sem við erum alls ekki að gera, heldur erum við að taka sambærileg dæmi, og að auki nýjasta dæmið.“

Skýrt og greinilega óskað eftir afslætti við lóð

Hjálpræðisherinn sendi inn umsókn til Reykjavíkurborgar um lóð í janúar á þessu ári. Kjartan segir umsóknina hafa verið tekna fyrir í borgarráði í febrúar og mars.

„Í umsókninni kemur skýrt fram að Hjálpræðisherinn óski eftir því við borgaryfirvöld að þeim verði veittur afsláttur af lóðaverði og gatnagerðargjaldi. Ef ekki, þá óskað eftir því að Reykjavíkurborg veiti þeim stofnframlag til byggingarinnar,“ segir Kjartan en Halldór sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að Hjálpræðisherinn hefði ekki sóst eftir slíkri niðurfellingu.

Frétt mbl.is: Ekki í samráði við Hjálpræðisherinn

Spurður út í það sem fram kom í frétt mbl.is fyrr í dag að tillagan hafi ekki verið lögð í samráði við Hjálpræðisherinn segir Kjartan að á þeim tíma sem umsóknin var lögð fram hafði fulltrúi Hjálpræðishersins samband við hann vegna málsins og kynnti m.a. lóðarumsóknina fyrir sér.

„Samtöl áttu sér því stað á milli okkar um málið sem er vissulega samráð þótt ekki hafi það verið formlegt. Eftir samtöl okkar varð niðurstaðan sú að ég myndi beita mér fyrir því að Hjálpræðisherinn myndi njóta sambærilegra kjara vegna lóðarúthlutunar sinnar og önnur trúfélög. Við umræður um málið í borgarráði hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins látið í ljós þessa skoðun sína og þurfti því tillaga um a.m.k. yrði ekki innheimt byggingarréttargjald af lóðinni ekki að koma á óvart,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert