Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að tvöfalda þurfi fjárframlög ríkisins til skólans til að hann fái jafnmikið úr að moða og tíðkast á Norðurlöndunum.
„Við erum núna hálfdrættingar á við Norðurlöndin í framlögum á hvern nemanda í háskóla,“ sagði Jón Atli í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni.
„Við getum ekki sinnt nemendum eins og við hefðum viljað. Þetta kemur niður á gæðunum,“ sagði hann. „Við getum ekki lengur sinnt öllu sem við viljum sinna vegna þess að fjárframlögin eru ekki næg.“
Hann greindi frá því að 10% aukið fjármagn vanti núna upp á ofan á þá 13 milljarða sem Háskóli Íslands fær úr ríkissjóði. Ef vel ætti að vera þurfi skólinn að fá einn og hálfan milljarð á næstunni frá ríkissjóði.