Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út síðdegis í dag vegna jeppa sem var fastur í Steinholtsá á Þórsmerkurvegi. Jeppanum, sem er á 35 tommu dekkjum, var ekið út í ána á vaði en straumurinn tók bílinn og bar hann um 25 metra niður ána og þar sem hann stöðvaðist náði vatnið vel upp á framrúðu jeppans.
Mennirnir héldu kyrru fyrir í bílnum þar til hjálp barst. Með aðstoð dráttarvélar úr Þórsmörk tókst að ná mönnunum tveimur á þurrt og jeppinn var síðan dregin úr ánni. Björgunarsveitamenn óku mönnunum, sem ekki varð meint af vosbúðinni, til byggða á sjötta tímanum í dag, samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu.
Mikið vatn er í ám á þessu svæði og Slysavarnafélagið Landsbjörg hvetur ferðafólk til að sýna fulla aðgát og leggja ekki út í tvísýnu í þessum vatnavöxtum.
Hér má sjá færðarkort Vegagerðarinnar þar sem merkt er inná hvaða vegir eru færir og á hvernig bílum.