„Rússland breytti öllu“

Kalniņš var áður sendiherra Lettlands í Bandaríkjunum og Mexíkó.
Kalniņš var áður sendiherra Lettlands í Bandaríkjunum og Mexíkó. mbl.is/Golli

Aðgerðir og hegðun yfirvalda í Rússlandi hafa verið stöðug ógn við öryggi Eystrasaltsríkjanna undanfarin ár. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Ojārs Ēriks Kalniņš, formanns utanríkismálanefndar lettneska þingsins, á ráðstefnu um varn­ar­mál, sem fram fór á fimmtudag á veg­um Varðbergs, Nex­us og Alþjóðamála­stofn­un­ar HÍ.

Frétt mbl.is: Hefðum ekki átt að loka herstöðinni

Í ræðu sinni sagði Kalniņš að Eystrasaltsríkin hafi þurft, og fengið, mikinn stuðning frá Atlantshafsbandalaginu í kjölfar árásar Rússlands inn í Úkraínu. Rússneski herinn hafi nútímavæðst á afar skömmum tíma, og geti nú beitt sér mjög fljótt hvert sem yfirvöld skipa honum að fara.

Veru rússneska hersins við landamæri Eystrasaltsríkjanna sagði hann þá hafa stóraukist og einkum við mæri Lettlands, þar sem herstöð hafi verið komið upp aðeins 30 kílómetrum frá landamærunum.

„Aðgerðir Rússa undanfarin misseri eru stöðug ógn við okkur.“

Frá æfingu herliðs Atlantshafsbandalagsins.
Frá æfingu herliðs Atlantshafsbandalagsins. AFP

Hægt að kalla það hvað sem er

Kalniņš sagði marga stjórnmálamenn feimna við að nefna hugtökin „viðvarandi“ og „ótímabundin“ þegar rætt sé um viðveru hers á vegum NATO í Lettlandi. Hins vegar sé til staðar ákveðin þörf, bæði til varnar Rússum og eins til að hughreysta lettnesku þjóðina.

„Það er hægt að kalla viðveru hersins hvað sem er, en lykilorðið fyrir okkur er: eins lengi og þörf er á. Við teljum að sannfærandi viðvera NATO stemmi stigu við árásargirni Rússa og komi þannig í veg fyrir frekari ógnir við öryggi okkar,“ sagði Kalniņš.

Eftir allt saman er markmiðið ekki að fara í stríð, heldur að fyrirbyggja að slíkt eigi sér stað.“

Þó bætti hann því við að Evrópusambandið skipti landið í raun jafn miklu máli og Atlantshafsbandalagið.

„Til að mynda eru það ESB-ríkin, en ekki NATO-ríkin, sem samþykkt hafa efnahagsþvinganir gegn Rússlandi.“

Nostalgíu gætir í stefnu Pútíns

Útgjöld landsins til varnarmála hafa að hans sögn verið aukin um 40% á þessu ári frá fjárlögum síðasta árs. Þá er önnur aukning um 40% fyrirhuguð á næsta ári.

Lettland fór líklega verst Evrópulanda út úr efnahagshruninu árið 2008, og þá voru fjárveitingar skertar til allra útgjaldaliða. Eftir að hagur landsins tók að batna þá voru útgjöldin aukin á ný, til alls nema varnarmála. Rússland breytti því öllu árið 2014.“

Hann sagði vissrar nostalgíu gæta í stefnu Pútíns Rússlandsforseta, þar sem svo virðist sem hann hann líti til ára fyrrum Sovétríkjanna hvað varðar hernaðarlega stefnu landsins.

Kalniņš hlýðir á ræðu Lilju D. Alfreðsdóttur utanríkisráðherra á fundinum.
Kalniņš hlýðir á ræðu Lilju D. Alfreðsdóttur utanríkisráðherra á fundinum. mbl.is/Golli

Hugrakkasta ríki Evrópu

Ljóst var af máli Kalniņš, sem gegndi áður starfi sendiherra Lettlands í Bandaríkjunum og Mexíkó, að Atlantshafsbandalagið væri landi hans mjög mikilvægt.

„Í seinni heimsstyrjöldinni, eftir að Rússar réðust inn í landið, komumst við að því að við getum ekki lifað af með hlutlausa afstöðu.“

Benti hann á að þrátt fyrir að nágrannalönd á borð við Svíþjóð og Finnland væru ekki meðlimir NATO, hefðu þau myndað með sér nokkurs konar Eystrasaltsbandalag, þar sem litið yrði á árás á eitt ríkjanna sem árás á þau öll.

Spurður hvaða þýðingu viðvera herafla NATO á Íslandi myndi hafa fyrir stöðu Letta, sagði hann að slíkt myndi sýna Rússlandi að bandalaginu væri alvara.

Lauk hann máli sínu á því að þakka Íslendingum fyrir viðurkenningu á sjálfstæði landsins árið 1991.

„Ísland er enn, í okkar huga, hugrakkasta ríkið í Evrópu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert