Lagasetningar á Alþingi Íslendinga eru ekki alltaf þannig úr garði gerðar að teknar séu vel upplýstar ákvarðanir. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði hræðilega vanbúin mál lögð fram í þinginu, þó að þau séu ekki fullþroskuð í ráðuneytum vegna pólitísks þrýstings ráðherra, í umræðum á Alþingi í dag.
Sérstök umræða um áhrif málshraða á lagasetningu fór fram að beiðni Birgittu á Alþingi í dag. Sagði hún að sér hafi brugðið þegar hún kom inn á Alþingi að sjá hvernig lagasetning ætti sér stað þar. Ítrekað hafi hún orðið vör við að lagafrumvörp sem séu lögð fram í belg og biðu rétt fyrir þinghlé hverju sinni séu ekki fullbúin og á mörkum þess að vera þingtæk.
Nefndi hún í þessu samhengi frumvarp um að heimila framkvæmdir við Bakkalínu sem var tekið skyndilega af dagskrá í gær þegar fréttir bárust af því að úrskurðarnefnd í umhverfis- og auðlindamálum hefði fellt framkvæmdaleyfi úr gildi í miðri umræðu um frumvarpið. Meirihlutinn hefði þvingað málið í gegn ef úrskurðurinn hefði ekki fallið í miðri umræðunni.
Þegar þingmenn leyfðu sér að að kalla eftir meiri tíma til að fara yfir lög sem moka eigi í gegn á færibandi séu svörin þau að hvergi í þeim löndum sem Ísland beri sig saman við sé lögum frá ráðuneytum breytt eins mikið í þinginu og hér.
„Það er ekki góðs viti því að það þýðir á mannamáli að lögin eru oft og tíðum hræðilega vanbúin vegna pólitísks þrýstings ráðherra að klára málin áður en þau eru fullþroskuð,“ sagði Birgitta.
Umboðsmaður Alþingis hafi gert athugasemdir við að skortur sé á fagmennsku við lagasetningar. Lagði Birgitta til að lagaskrifstofa Alþingis yrði sett á fót til að samræma reglur við samningu lagafrumvarpa og vera þingmönnum til ráðgjafar um undirbúning ráðgjafar eins og Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hafi lagt fram frumvarp um.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra sagði það mikla áskorun fyrir Íslendinga að viðhalda löggjöf sem væri sambærileg við mun stærri þjóðir með mun stærri stjórnsýslu. Forsætisráðuneytið hafi haft forystu um að bæta undirbúning löggjafar á ýmsan hátt.
Skýringin á því að fjöldi mála kæmi inn í þingið skömmu fyrir þinglok væri einföld. Mörg mál hafi verið lengi í undirbúningi, sum jafnvel mörg ár eins og frumvarp um breytingar á almannatryggingum.
„Þegar búið er að ákveða að stytta kjörtímabilið er eðlilegt að ráðherrar og ríkisstjórn vilji nýta þá miklu vinnu sem hefur verið lög í málin og koma á framfæri við Alþingi, í einstaka tilvikum með tiltölulega stuttum fyrirvara eins og gefur að skilja með það fyrir augum að lagafrumvörpin yrðu afgreidd hér frá þinginu,“ sagði forsætisráðherra.
Lengi mætti gott bæta. Menn vildu gjarnan hafa meiri tíma og mannafla fyrir samráð, mat á áhrifum lagafrumvarpa áður en þau eru lögð fram og fullvissa sig betur um hvort lög standist kröfur stjórnarskrár og alþjóðasáttmála.
„Stundum verður hins vegar hreinlega að taka af skarið og láta gott heita í þeirri trú að ekki verði betur gert miðað við tíma og mannafla sem er til ráðstöfunar og í ljósi þess að stjórnvöld geta ekki setið aðgerðarlaus þegar málefni kalla á úrlausn,“ sagði Sigurður Ingi.
Rétt sé hjá Birgittu að rætt sé um að lagafrumvörpum sé meira breytt í þinginu hér en annars staðar en það hafi líka verið nefnt sem dæmi um meira lýðræði og að þingið hafi meiri aðkomu að lagasetningum.
Benti Sigurður Ingi á það mat OECD að of mikil áhersla sé lögð á að samþykkja ný lög og reglur en minni á að kanna hvort gildandi lög séu að ná markmiði sínu. Þingið og þingnefndir gætu lagt lið við að bæta það. Þá sagði hann að hugmyndir Vigdísar um lagaskrifstofu Alþingis væru leið sem mætti skoða.
Hvað raflínurnar á Bakka varðaði nefndi Sigurður Ingi það sem dæmi um minni háttar neyðarástand sem þingið þyrfti að geta brugðist við. Unnið hafi verið í mörg ár að undirbúningi uppbyggingar á Bakka.
„Síðan ætlar þingið bara að segja: „Pass, við gerum ekki neitt. Við ætlum að láta þetta hverfa.“ Þá verða menn sem það segja að fara hér upp og segja: „Við erum hér ekki í málþófi til að tefja málið. Við erum ekki hér komin til þess að koma í veg fyrir að þessi mál gangi fram heldur látum á það reyna. Tökum af skarið.“,“ sagði forsætisráðherra.