Tilkynningar hafa ekki borist slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um vatnstjón enn sem komið er en samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu eru menn við öllu búnir þar á bæ.
Búist er við að vatnsveðrið sem hefur verið í gangi í dag nái hámarki í nótt og í fyrramálið og hefur fólk á Suður- og Vesturlandi verið hvatt til þess að hreinsa frá niðurföllum til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum vatnsins.
Sveitarfélagið Borgarbyggð hefur meðal annars hvatt íbúa sína til þess að huga að eignum sínum. Mikilvægt sé að hreinsa lauf og annað rusl frá niðurföllum og úr kjallaratröppum þar sem niðurföll sé að finna.