„Víða er pottur brotinn í samskiptum hér heima á milli foreldra og barna,“ sagði Ragnheiður Ríkarðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Tók hún upp þráðinn frá því hún talaði um mannréttindabrot á fimm ára dreng, sem norsk yfirvöld kölluðu eftir að yrði sendu þangað í fóstur.
Ragnheiður fjallaði í síðustu viku um mál ungs drengs sem flytja átti í fóstur til Noregs. Talaði hún þá um að verið væri að fremja mannréttindabrot á drengnum.
„Börnin verða mitt á milli sinna foreldra sem geta ekki komið sér saman umgengnisrétt. Annað foreldrið hamlar og tálmar hinu foreldrinu þess að hafa samskipti við börn,“ bætti Ragnheiður við og sagði að við slík dæmi væri skýrt að yfirvöld ættu að bregðast við:
„Ég tel að það þurfi að fylgja betur eftir þeim lögum sem við höfum til að tryggja það að fullorðið fólk í ágreiningi láti ekki þann ágreining sinn bitna á börnum.“ Löggjafinn eigi að geta leist úr slíkum málum fyrir barnið.
„Þetta finnst mér að skipti máli og við þurfum að laga,“ sagði Ragnheiður en þetta var líklega síðasta ræða Ragnheiðar á Alþingi í störfum þingsins en hún hættir þingstörfum fyrir kosningar.
„Ég þakka kærlega fyrir mig.“