„Börn missa hluta af sjálfum sér“

Sigrún Júlíusdóttir, prófessor við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.
Sigrún Júlíusdóttir, prófessor við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. mbl.is/ Ófeigur Lýðsson

Ekki er nægur gaumur gefinn að stöðu barna við fráfall foreldris og brýnna úrbóta er þörf. Þetta kom fram á ráðstefnu um réttarstöðu og velferð barna við andlát foreldris í Norræna húsinu í dag. Innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti í samstarfi við Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands stóðu að ráðstefnunni.

„Börn eru berskjölduð og glíma ein við óskiljanleikan sem fylgir dauðsfalli. Börn missa hluta af sjálfum sér og lífi sínu við missinn og geta borið varanlegan skaða af sorginni ef þau vinna ekki úr henni,“ segir Sigrún Júlíusdóttir, prófessor við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Á ráðstefnunni kynnti hún fyrsta hluta rannsóknar sinnar, sem bar yfirskriftina: Staða barna við andlát móður úr krabbameini – raddir barnanna. Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. 

Í rannsókninni var skoðað áhrif af dauðsfalli móður því fráfall hennar er yfirleitt talið hafa meiri áhrif á börn en andlát föður. Þar kemur fram að algengt er að barnið gleymist, verði utanveltu og afskipt við andlát foreldris. Í viðtölum við einstaklinga sem höfðu misst foreldra á barnsaldri nefndu þau að þau hefðu þurft betri og meiri aðstoð í sorgarferlinu. Einnig kom fram tvíbent viðhorf þeirra gagnvart aðstoð frá fagfólki því vantrausts gætti.  

Í rannsókninni er meðal annars skoðuð reynsla, sýn og uppástunga fagfólks, eftirlifandi foreldris og ömmu og afa við fráfall foreldris barns, einnig eru uppkomin börn spurð um bernskureynslu sína af foreldramissi. Rætt var við 11 einstaklinga sem höfðu misst foreldri á barnsaldri en þegar viðtölin voru tekin voru þeir í kringum 20 ára aldur.

Það þarf að hlúa vel að börnum sem missa foreldri …
Það þarf að hlúa vel að börnum sem missa foreldri sitt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óttast að valda meiri skaða

Eftirlifandi foreldri og aðstandendur óttast gjarnan að valda börnunum meiri skaða og vita stundum ekki hvernig þau eiga að nálgast barnið, segir Sigrún um viðbrögð  eða skort á þeim í þessum aðstæðum. Hún tekur þó fram að foreldrið sem eftirlifir syrgir makann og eigi því oft ekki mikið aflögu til að sinna barninu. 

Börnin dylja oft líðan sína og þurfa svo oft að takast á við ný tengsl í ofan á lag ef til dæmis nýr maki kemur inn í myndina. Í þessu samhengi bendir Sigrún á að margt sé líkt með stöðu barna við andlát foreldris og við skilnað. Annar og nýr veruleiki tekur við þeim sem þau áður þekktu og tóku sem gefnum. 

„Mjór vísir“ í lögum um velferð barna 

Ekki er nægilega góð fagleg þekking til að takast á við þessar aðstæður innan kerfisins. Fagfólk þarf meðal annars meiri stuðning, faghandleiðslu og bæta þekkingu sína á sorg barna og sorgarviðbrögðum þeirra. Þetta kemur fram í niðurstöðu rannsóknarinnar á rýnihópasamræðum fagsfólks á Landspítalanum. Jafnframt kemur fram að fagfólk vill ekki líða fyrir „of þrönga glugga“ í starfinu gagnvart börnum, það vill geta sinnt barninu og vísað í „góðar hendur“ einkum ef ósætti er í fjölskyldum.  

Sigrún bendir á að mikilvægt sé að greina og meta þarfir hverrar fjölskyldu, einkum ef brestir eru í samskiptum svo hægt sé að tryggja henni aðgang að viðeigandi faglegri þjónustu. Hún vísar til fyrirkomulags í hinum Norðurlöndunum sem ákjósanlega fyrirmynd um hvernig unnið er með börnum og fjölskyldum þeirra við fráfall foreldris. Í Noregi er hugað að sálfélagslegri líðan þessara barna og heilsu en heilbrigðisþjónustu er skylt að veita hana samkvæmt lögum. „Til að bregðast við þessari vitneskju þarf að vera ákvæði í lögum um velferð barna. Hér á landi er mjór vísir að þessu til samanburðar við lögin í nágrannalöndum okkar,“ segir Sigrún.

Hrefna Friðriksdóttir, prófessor í fölskyldu- og erfðarétti við lagadeild Háskóla …
Hrefna Friðriksdóttir, prófessor í fölskyldu- og erfðarétti við lagadeild Háskóla Íslands. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Endurskoða lög um réttindi sjúklinga 

„Mér finnst við þurfa að huga að því að endurskoða lög um réttindi sjúklinga og taka ríkara tillit til réttinda barna sem aðstandenda,“ segir Hrefna Friðriksdóttir, prófessor í fjölskyldu- og erfðarétti við lagadeild Háskóla Íslands.

Við fráfall foreldris vakna ýmsar spurningar sem snerta umönnun barnsins. Forsjá barns við andlát foreldris tekur yfirleitt mið af því hvernig henni var háttað fyrir dauðsfallið. Við fráfall foreldris er alltaf reynt að raska sem minnst stöðunni til að tryggja öryggi barnsins. Fyrst og fremst er hugsað um hvað er líklegast að sé barninu fyrir bestu, að sögn Hrefnu.

Við dauðsfall foreldris reynir helst á barnalög, barnaverndarlög, lög um ættleiðingu og erfðalög. Sérstök ákvæði eru í þessum lögum til að taka aðrar ákvarðanir því það sama getur ekki hentað öllum. „Í hverju tilviki er skoðuð rækilega staðan eins og hún er. Lífssögur okkar eru mismunandi,“ segir Hrefna og bendir á að við dauðsfall aukast líkur á flækju, spennu og togstreitu í samskiptum. Í þessu samhengi bendir hún á þá „gríðarlega miklu réttarbót“ að barn getur átt rétt á umgengni við nána vandamenn eins og t.d. ömmur og afa, frænkur og frændur. 

Vill opna ættleiðingarlögin

Hrefna vill opna ættleiðingar og endurskoða ættleiðingarlögin með tilliti til þess. Gerð hefur verið tillaga um svokallaðar opnar ættleiðingar þegar um er að ræða fósturbörn. Í opinni ættleiðingu er opið fyrir umgengni við upprunafjölskyldu og tengslin við hana hafa ekki verið fyllilega rofin. „Með opinni ættleiðingu er hægt að tryggja réttindi barns fyrir stöðugleika og öryggi í lífi sínu en líka tryggt að barnið haldi tengslum við upprunafjölskyldu þar sem það á við,“ segir Hrefna. Hún bendir á að samkvæmt núverandi ættleiðingarlögum rýfur ættleiðing tengsl og stofnar til nýrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert