Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var með nýfædda dóttur sína á brjósti þegar hún mætti í ræðustól á Alþingi í dag.
Þar fór fram atkvæðagreiðsla um útlendingalög.
Barnið var hið rólegasta á meðan á ræðu Unnar stóð.
Unnur Brá og kærasti hennar, Sigurður Ingi Sigurpálsson, eignuðust dótturina 1. september.
Fyrir á Unnur Brá tvö börn sem eru fædd 2004 og 2008.
Frétt mbl.is: Unnur Brá eignast dóttur
Samfylkingarkonan Margrét Gauja Magnúsdóttir, sem er varamaður á Alþingi fyrir Katrínu Júlíusdóttur, tjáði sig um atvikið á Facebook-síðu sinni. Þar sagðist hún sjálf hafa verið með börnin sín á brjósti á bæjarstjórnarfundum.
Dóttir Unnar var einnig með henni í för á ráðstefnunni Arctic Circle og á fundi sem var haldinn í Háskóla Íslands um leiðtogafundinn hér á landi.