Vill heimila eignarnám við flugvöllinn

Flugvöllurinn er sagður gegna lykilhlutverki sem miðstöð innanlandsflugs.
Flugvöllurinn er sagður gegna lykilhlutverki sem miðstöð innanlandsflugs. mbl.is/Þórður

Höskuld­ur Þór­halls­son, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram frumvarp um að Reykjavíkurflugvöllur skuli starfræktur í Vatnsmýri í Reykjavík. Þá verði ráðherra veitt heimild til að taka eignarnámi land sem nauðsynlegt sé til að framkvæma lögin.

Skjal sem sýnir þetta birtist á vef Alþingis síðdegis í dag.

Segir í frumvarpinu að á vellinum skuli enn fremur vera þrjár malbikaðar flugbrautir, auk aðstöðu fyrir farþega í innanlandsflugi og einka- og kennsluflug.

Þá eiga lögin að ganga framar ákvæðum almennra laga, svo sem skipulagslaga og loftferðalaga, að því er segir í 3. grein frumvarpsins.

Höskuldur Þórhallsson lagði fram frumvarpið fyrr í dag.
Höskuldur Þórhallsson lagði fram frumvarpið fyrr í dag. mbl.is/Golli

Afdrif frumvarpsins óljós

Í greinargerð er tilgangur frumvarpsins sagður vera að festa Reykjavíkurflugvöll í sessi, „í því horfi sem hann hefur um árabil verið í Vatnsmýri í Reykjavík þar til Alþingi ákveður annað.“

Flugvöllurinn gegni lykilhlutverki sem miðstöð innanlandsflugs og hafi verulega þýðingu fyrir samgönguöryggi landsmanna. Þá sé hann afar mikilvægur fyrir sjúkraflug með sjúklinga af landsbyggðinni á Landspítalann.

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra lagði fyrr í dag fram tillögu að þingsályktun þess efnis að fund­um þings­ins verði frestað frá 13. októ­ber, eða síðar ef nauðsyn krefði.

Afdrif þessa frumvarps sem, eins og lagafrumvörp yfirleitt, á eftir að ganga í gegnum þrjár umræður, nefndarálit og breytingatillögur, eru því óljós.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert