Hafa áhyggjur af auknu framboði fíkniefna

AFP

Lögreglufélag Vestfjarða skorar á núverandi og væntanlega ríkisstjórn að ljúka ófrágengnum málum frá gerð kjarasamninga haustið 2014. Þetta kemur fram í ályktun félagsfundar Lögreglufélags Vestfjarða frá því í gærkvöldi.

„Fundurinn lýsir yfir áhyggjum sínum af auknu framboði fíkniefna og hugmyndum stjórnvalda að afglæpavæða vörslu á fíkniefnum til einkaneyslu. Fundurinn skorar á stjórnvöld að koma í veg fyrir að heimila neyslu ólöglegra fíkniefna.

Fundurinn lýsir, enn og aftur, yfir þungum áhyggjum af stöðu löggæslumála í landinu. Á sama tíma og íbúum fjölgar og fjölgun ferðamanna stóreykst ár hvert, allt árið um kring, fækkar lögreglumönnum og fjárheimildir minnka til muna.  Þetta hefur gert það að verkum að vinnuálag lögreglumanna hefur stóraukist, rekstrarumhverfi ökutækja lögreglu minnkað og heldur ekki verið hægt að endurnýja bílaflota lögreglu með öryggissjónarmið lögreglumanna að leiðarljósi.

Fundurinn vill minna á skýrslu sem gerð var á vegum innanríkisráðuneytisins um eflingu löggæslu til ársins 2017, en í henni var stefnt að fjölgun lögreglumanna á landinu.  Það hefur ekki gengið eftir og er langt í land að svo verði með áherslum núverandi ríkisstjórnar.

Fundurinn skorar í stjórnvöld og nýja ríkisstjórn að auka fjármagn strax til lögreglunnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert