Leggja þarf mat á umhverfisáhrif lagningar jarðstrengja fyrir Bakkalínu og Skútustaðahreppi er ekki stætt á að afgreiða framkvæmdaleyfi fyrr en það hefur verið gert, að mati Guðmundar Inga Guðbrandssonar, framkvæmdastjóra Landverndar. Afleiðingar úrskurðar sem felldi framkvæmdaleyfi úr gildi séu ekki eins einfaldar og haldið er fram.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úrskurð um framkvæmdaleyfi sem Skútustaðahreppur veitti Landsneti vegna lagningar Kröflulínu 4 á mánudag. Í honum fann nefndin meðal annars að áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati og rökstuðningi sveitarfélagsins fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins.
Landsnet lýsti því strax yfir að umhverfismatið stæði enn og að ekki væri þörf á nýju. Oddviti Skútustaðahrepps sagði við Morgunblaðið í dag að sveitarfélagið væri komið með umsóknina um leyfið aftur á sitt borð. Afgreiðsla hennar gæti tekið tvær vikur ef allt gengi eftir. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra sagði úrskurðinn fremur ráðast af formi málsins en efni.
Guðmundur Ingi segir hins vegar engan tala um að gera þurfi umhverfismat fyrir alla framkvæmdina upp á nýtt. Málið sé þó ekki eins einfalt og Landsnet og ráðherra vilji láta í veðri vaka.
„Úrskurðurinn er alveg skýr hvað það varðar að það þurfi að umhverfismeta jarðstrengi,“ segir hann en Landvernd vildi að Landsnet skoðaði frekar möguleikann á að leggja hluta raflínunnar um jarðstreng.
Úrskurðarnefndin gerði athugasemd við að Landsnet hafi ekki metið umhverfisáhrif jarðstrengs og leiða fyrir hann fyrir þessa tilteknu framkvæmd heldur aðeins vísað til almenns samanburðar á jarðstrengjum og loftlínum. Fann hún einnig að því að Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við þetta í áliti sínu og að sveitarstjórnin hafi ekki gengið á eftir því við veitingu leyfisins, sérstaklega í ljósi þess að hún bókaði á sínum tíma að æskilegt væri að leggja hluta línunnar í jörð.
Guðmundur Ingi telur að Skútustaðahreppur gæti bætt úr annmörkum á framkvæmdaleyfinu með því að fara þess á leit við Landsnet að fyrirtækið láti fara fram mat á áhrifum jarðstrengs á umhverfið í samræmi við úrskurðinn.
„Við teljum að sveitarstjórn sé ekki stætt á því að afgreiða framkvæmdaleyfið fyrr en það er búið,“ segir hann.
Hægt sé að líta til fyrri úrskurðar úrskurðarnefndarinnar um Kröflulínu 3 um að umhverfismeta þurfi jarðstrengi og sömuleiðis dóms Hæstaréttar um Suðurnesjalínu í vor þar sem tekið hafi verið fram að Landsnet hefði þurft að umhverfismeta jarðstrengi og hvar þeir hefðu getað legið.
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps hefur boðið fulltrúum Landverndar á sinn fund á morgun sem Guðmundur Ingi segir afar jákvætt. Þar ætli Landvernd að kynna sína túlkun á úrskurðinum.
„Ég hef fulla trú á að sveitarstjórnin vandi sig við þetta. Hún er búin að lýsa því yfir og ég hef enga ástæðu til að rengja það,“ segir hann.