Íbúasamtök Kjalarness hafa boðað til opins fundar með borgarfulltrúum fimmtudaginn 10. nóvember til að ræða framtíðarsýn Reykjavíkurborgar á „græna treflinum“.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá íbúasamtökunum, en trefillinn mun vera samheiti yfir skógræktar- og útivistarsvæði á útmörk sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu og svæðinu við og í næsta nágrenni við Esjuna.
„Kjarni málsins er að borgarstjórinn lýsti því yfir fyrir um sex eða sjö vikum síðan að haldinn yrði fundur eftir sex vikur.
Við fréttum af því að sá fundur yrði aðeins til kynningar á verkefninu en við viljum fyrst og fremst ræða framtíða græna trefilsins, sú umræða þarf að fara fram fyrst,“ segir Sigþór Magnússon, formaður Íbúasamtaka Kjalarness, í samtali við mbl.is.
Í ágústmánuði lögðust Íbúasamtök Kjalarness alfarið gegn því að Reykjavíkurborg undirriti samning um leigu á lóðum í hlíðum Esju í tengslum við áætlanir fyrirtækisins Esjuferju ehf. um svifbraut á Esju.
Frétt mbl.is: Afþakka svifbraut á Esju
Í tilkynningunni kemur fram að íbúar á Kjalarnesi hafi ítrekað beðið um fund hjá Reykjavíkurborg varðandi hugmyndir um framkvæmdir í Esjuhlíðum sem rími ekki við núgildandi skilgreiningu á græna treflinum.
Ekkert hafi orðið af því og þess vegna sé boðað til fundarins.
„Þetta er gífurlega mikið rask sem þeir voru að skipuleggja án þess að hafa ákveðið framtíð græna trefilsins. Samkvæmt honum eiga að vera litlar byggingar, ef einhverjar, til að þjóna ferðamönnum en í þessu tilviki erum við að tala um fleiri hundruð fermetra,“ segir Sigþór.
Ræða þurfi heildarmyndina um skipulag uppbyggingar á Esjusvæðinu því íbúar séu almennt hrifnir af uppgræðslu síðustu ára.
„Íbúar eru almennt hrifnir af því að vera með uppgræðslu í fjallinu og við finnum fyrir því að sú gróðursetning sem hefur farið fram undanfarin ár hefur skapað heilmikið skjól fyrir íbúa og vegfarendur.“