„Þetta eru frábærar fréttir og ættu að vekja norsk stjórnvöld til umhugsunar. Þetta sýnir að Íslendingar gera sér grein fyrir því að Brexit þýðir breyttar aðstæður fyrir öll Evrópuríki,“ segir Kathrine Kleveland, leiðtogi norsku samtakanna Nei til EU sem berjast gegn inngöngu Noregs í Evrópusambandið, í samtali við norska dagblaðið Klassekampen.
Tilefnið er sú stefna Framsóknarflokksins, sem samþykkt var á flokksþingi hans í byrjun þessa mánaðar, að ástæða sé til þess að leggja mat á árangurinn af aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og Schengen-samstarfinu og skoða aðra valkosti. Ekki síst vegna fyrirhugaðrar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu sem nefnd hefur verið Brexit. Málið hefur vakið nokkra athygli en norska dagblaðið Nationen fjallar einnig um það.
Frétt mbl.is: Vill endurskoða EES og Schengen
Fram kemur í frétt Klassekampen að lítið hafi farið fyrir umræðu um málið í Noregi og að norsk stjórnvöld hafi lagt áherslu á þá stefnu að viðhalda aðild landsins að EES-samningnum. Kleveland segir norska ráðamenn einblína um of á EES-samninginn á sama tíma og ljóst sé að Íslendingar nálgist málið með opnum huga. Úrsögn Breta skapi ný tækifæri.
Systurflokkur Framsóknarflokksins í Noregi, Miðflokkurinn, er sama sinnis og Kleveland segir í fréttinni. Haft er eftir Sigbjørn Gjelsvik, sem farið hefur fyrir starfi innan flokksins sem miðar að því að skoða valkosti við EES-samninginn, að Bretar eigi væntanlega eftir að ná betri samningi við Evrópusambandið en Ísland og Noregur hafi í dag.
„Það mun einnig skapa tækifæri fyrir Ísland og Noreg,“ segir Gjelsvik og bendir enn fremur á að Bretum hugnist ekki EES-samningurinn. Enda þýði hann að taka þurfi upp reglur sem Evrópusambandið setji. Íslendingar séu reiðubúnir að kanna aðra valkosti og segi Ísland skilið við samninginn verði Norðmenn að endurskoða sína stöðu.
„EES-samningurinn hefur marga kosti í för með sér fyrir okkur óháð því hvort Ísland tekur áfram þátt í honum,“ segir Øyvind Halleraker, þingmaður Hægriflokksins, við Klassekampen. Engu breytti um afstöðu norskra stjórnvalda til samningsins þótt Ísland segði skilið við hann og breiður stuðningur væri við aðildina að honum í norska þinginu.