Loftslagsstefna aðeins þriggja af þeim sjö flokkum sem kannanir benda til að nái mönnum á þing standast próf sem aðgerðasamtökin París 1,5 lögðu fyrir þá. Prófið byggði meðal annars á spurningum um markmið um samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda og afstöðu til olíuvinnslu.
París 1,5 er hópur áhugafólks um loftslagsmál en aðeins Björt framtíð, Vinstri græn og Samfylkingin stóðust rýni hópsins á loftslagsstefnu þeirra. Lagt var mat á stefnu þeirra eins og hún birtist á vefsíðum flokkanna en einnig sendi hópurinn tölvupósta á flokkana sjö.
Spurt var um sjö þætti sem höfðu mismikið vægi við einkunnagjöfina, þar á meðal afstöðu til olíuvinnslu á Drekasvæðinu, tölu- og tímasett markmið um samdrátt í losun, kolefnisgjald, endurheimt votlendis og skógrækt og tillögur um breytingar á innviðum. Einnig var litið til þess hvort að flokkurinn hafi tekið loftslagsmál upp í aðdraganda kosninganna.
Mat var svo lagt á svörin og stefnu flokkanna gefin einkunn á skalanum 1-10. Stefna Vinstri grænna fékk 6,4, Bjartrar framtíðar 6,0 og Samfylkingarinnar 5,6. Stefna annarra flokka fékk falleinkunn. Í tilkynningu Parísar 1,5 kemur þó fram að lítið vanti upp á hjá Pírötum og Viðreisn. Verði metnaðarfull stefna sem liggur fyrir í kosningakerfi Pírata samþykkt taki þeir líklega forystu í mati hópsins.
Í tilkynningunni kemur fram að einkunnir flokkanna verði uppfærðar um það bil viku fyrir kosningar.
Nánar um loftslagrýni Parísar 1,5 á stefnu stjórnmálaflokkanna