Skúta sem á hvergi heima

Skútan hefur verið í Reykjavíkurhöfn undanfarna daga.
Skútan hefur verið í Reykjavíkurhöfn undanfarna daga. mbl.is/Árni Sæberg

Sjö manna áhöfn seglskútunnar Ópal leysir í dag landfestar frá höfn í Reykjavík. Förinni er heitið til nyrstu slóða Noregs, þar sem farið verður meðal annars með ferðamenn í hvalaskoðunarferðir.

Heimir Harðarson skipstjóri Ópal segir í samtali við mbl.is að förin taki um sjö til átta daga, en hann og hans áhöfn sigldu til Noregs á síðasta ári.

„Það var í raun aðeins kynningarferð eða skoðunarleiðangur. Þetta er í fyrsta sinn sem við ætlum að vera með ferðir fyrir fólk,“ segir Heimir, sem siglir skipinu fyrir Norðursiglingu. Hann hyggst fara talsvert norðar nú en á síðasta ári.

„Í fyrra fórum við bara til Stafangurs og svo til Óslóar en nú stefnum við norður á bóginn til Tromsø.“

Fólk býr í viku um borð

Þá ætla þeir enn austar með skipið í vetur, eða til Lyngen-alpanna við landamæri Finnlands og Noregs. Heimir segir ferðirnar þar verða misjafnar eftir því hvað sé að sjá hverju sinni.

„Það koma þarna hnúfubakar inn í firðina í nóvember, desember og janúar. Við ætlum að byrja á því að skoða þá og náttúrulega norðurljósin líka, sem láta sjá sig þar á þessum tíma árs.“

Þegar birta fer að vori fær áhöfnin til sín ferðamenn sem vilja skíða í Lyngen-ölpunum.

„Þá býr fólk í sirka viku um borð og gengur á fjöllin, sem er ofboðslega vinsælt þarna,“ segir Heimir. Skútan er aðeins nýkomin hingað til lands frá Scoresby-sundi á Grænlandi, þar sem Norðursigling skipuleggur líka skoðunarferðir.

„Hún á í raun kannski hvergi heima, þó að heimahöfnin sé vissulega Húsavík og hún sé stundum þar.“

Nefndu skúturnar eftir eðalsteinum

Austur-Þjóðverjar hönnuðu skipið í síðari heimsstyrjöldinni og fjöldaframleiddu, en Ópal var byggð árið 1951.

Spurður hvaðan nafnið komi segir Heimir að dönsk útgerð hafi keypt skipið ásamt fleiri bátum, sem þá höfðu verið notaðir bæði til hernaðar og fiskveiða.

„Þá nefndu þeir skúturnar eftir eðalsteinum, það var Ópal og Safír og Rúbín og Demantur og svo framvegis. Síðar var hún keypt aftur og var búin að vera í eigu sama fólks í Danmörku í um fjörutíu ár, þegar við kaupum hana fyrir þremur árum.“

Heimir segir að fólkið hafi beðið sig um að halda nafninu við söluna.

„Ef við myndum ekki halda því, þá sögðust þau myndu þiggja að fá aftur ópalinn, eðalsteininn sem á sér stað undir stórmastrinu. En ég sagðist þá að sjálfsögðu ætla að halda nafninu, enda ágætisnafn.“

Stefnan er svo tekin á Svalbarða í vor, að sögn Heimis, þaðan sem farið verður í skoðunarferðir með ferðamenn út frá Longyearbyen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert