Fundu handritsbrot Njálu í Seattle

Ein blaðsíða handritsins.
Ein blaðsíða handritsins. Ljósmyndir/Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, prófessor við Stofnun Árna Magnússonar, hefur fengið afhent handritsbrot af Njálu frá bókasafnara í nágrenni Seattle. Bókasafnarinn, sem heitir Williard Larsson og er af íslenskum ættum, afhenti Gísla handritsbrotið í gær.

„Við höfðum áður reynt að skrifa til hans og ná sambandi við hann, en það hafði aldrei tekist, fyrr en nú,“ segir Gísli í samtali við mbl.is. Segir hann að fundinum með Larsson hafi meðal annars verið komið á að frumkvæði Arnar Arnar, ræðismanns Íslands í Minneapolis, sem færði Árnasafni Melsteðs-Eddu um aldamótin.

Frétt mbl.is: Melsteðs-Edda afhent

„Öll handrit eru einstök, það liggur í hlutarins eðli, og því er alltaf gaman að finna einhver sem maður vissi ekki áður af. Handritið er mjög ungt, eða skrifað rétt eftir miðja nítjándu öld,“ segir Gísli.

Heima hjá Williard Larsson, sem færði Gísla handritsbrotið. Larsson til …
Heima hjá Williard Larsson, sem færði Gísla handritsbrotið. Larsson til hægri á myndinni.

Kann að vera uppskafningur

Á Facebook-síðu Gísla, þar sem hann deildi fréttum af fundinum, bendir Davíð Ólafsson sagnfræðingur á að handritið kunni að hafa verið skrifað upp af Guðlaugi Magnússyni, vinnumanni á Fellsströnd í Dalasýslu, sem fór til Vesturheims árið 1874.

Skinnkápa er utan um handritið og segir Gísli að það kunni að vera svokallaður uppskafningur.

„Það er þegar texti hefur verið á skinninu en síðar skafinn af. Ekki er hægt að sjá það með berum augum en með myndatækni er hins vegar hægt að sjá hvort sú sé raunin. En auðvitað getur hún líka verið venjuleg skinnkápa. Það er ekkert í hendi með það.“

Handritið kann að hafa verið skrifað upp af Guðlaugi Magnússyni, …
Handritið kann að hafa verið skrifað upp af Guðlaugi Magnússyni, vinnumanni.

Finnst Gauks saga í Vesturheimi?

Mörgum verður þá eflaust hugsað til Gauks sögu Trandilssonar, sem aldrei hefur fundist. Í Möðruvallabók er eyða á milli Njálu og Egils sögu og segir þar, illlæsilega: „Láttu rita hér við Gauks sögu Trandilssonar, mér er sagt að [Herra] Grímur eigi hana.“

„Það er auðvitað frægasta týnda sagan og fólk er alltaf að bíða eftir því að hún finnist. Hugmyndin er einmitt sú, með nýju framtaki Árnastofnunar, að leita uppi handrit sem kunna að leynast vestanhafs.“

Vísar Gísli þar til verkefnisins, Í fótspor Árna Magnússonar, sem ætlað er að koma upp stafrænum gagnagrunni utan um skrif sem voru í eigu eða búin til af Íslendingum í Vesturheimi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert