Skoðaði reynslu samkynhneigðra fósturforeldra

Reynsla samkynhneigðra fósturforeldra af samskiptum við barnaverndaryfirvöld, skóla- og heilbrigðiskerfið …
Reynsla samkynhneigðra fósturforeldra af samskiptum við barnaverndaryfirvöld, skóla- og heilbrigðiskerfið er almennt góð. Morgunblaðið/Styrmir Kári

Guðrún Hrefna Sverrisdóttir hafði starfað að barnaverndarmálum í áratugi þegar hún ákvað að skrifa meistaraprófsritgerð í félagsráðgjöf um reynslu samkynhneigðra af fósturforeldrahlutverkinu. Víða erlendis hefur sú þróun átt sér stað að samkynhneigðum fósturforeldrum fer fjölgandi og bendir rannsókn Guðrúnar Hrefnu til þess að ekkert innan íslenska kerfisins hindri að slík þróun geti einnig orðið hér á landi.

„Ég er búin að vinna í barnavernd í 20 ár og hef meðal annars komið að fósturmálum,“ segir Guðrún Hrefna og bætir við að stundum hafi verið erfitt að fá fólk til að taka að sér fósturforeldrahlutverkið, einkum fyrir eldri börn.

Ritgerðin ber heitið „Það besta sem hefur komið fyrir mig“ og segir í kynningu á ritgerðarefninu að viðhorf samfélagsins hafi í gegnum tíðina „einkennst af fullyrðingum um að hvorki hommar né lesbíur hafi getu eða hæfni til að ala upp börn vegna kynhneigðar sinnar. Börn þurfi bæði móður og föður í uppeldinu og best sé fyrir börn að alast upp í gagnkynhneigðri fjölskyldu sem er ríkjandi staðalmynd fjölskyldna í samfélaginu. Að alast upp hjá samkynhneigðum foreldrum hafi neikvæð áhrif á þroska barna,“ segir í kynningunni.

Jákvæð reynsla af því að vera með börn

Rannsókn Guðrúnar Hrefnu bendir þó til þess að slíkar fullyrðingar njóti lítils stuðnings í kerfinu, enda hafi niðurstaðan verið sú að barnaverndaryfirvöld og aðrar stofnanir samfélagsins taki vel á móti samkynhneigðum fósturforeldrum. „Ég upplifði í langflestum tilvikum jákvæða reynslu af því að vera með börn, hjá þeim sem voru, eða höfðu verið, með börn í fóstri,“ segir Guðrún Hrefna.

Ritgerðin byggir á eigindlegum rannsóknaraðferðum og var Anni G. Haugen, lektor við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, leiðbeinandi hennar. Guðrún Hrefna tók viðtöl við þrettán samkynhneigða fósturforeldra sem höfðu tekið börn í skammtíma-, sem og varanlegt fóstur, og sem í einhverjum tilfellum höfðu fóstrað fleiri en eitt barn.

„Ég skoðaði hvernig þeir upplifðu samskiptin og reynsluna af því að hafa sótt um að verða fósturforeldrar, hver reynsla þeirra var að hafa gengið í gegnum þetta ferli, samskiptin við barnaverndaryfirvöld, sem og hvernig samskiptin voru við skóla- og heilbrigðiskerfið ef á þurfti að halda.“

Hún segir viðmælendur sína hafa verið sammála um að kerfið taki vel á móti samkynhneigðum fósturforeldrum og niðurstöðurnar sýni enn fremur að samkynhneigðir fósturforeldrar telji fósturforeldrahlutverkið geta verið eina þeirra leiða sem hommar og lesbíur geti farið til að verða foreldrar.

Felur í sér lífshamingju og lífsfyllingu

„Fósturhlutverkið felur í sér bæði lífshamingju og lífsfyllingu, sem og jákvæða reynslu sem fæstir vilja hafa farið á mis við,“ segir Guðrún Hrefna og bætir við vissulega geti þó erfiðleikar líka fylgt fósturhlutverkinu.

Nokkur skortur er hins vegar á almennum upplýsingum um málefni fósturbarna og fósturforeldra í samfélaginu, sem hún segir skýra hugsanlega takmarkaðan fjölda samkynhneigðra fósturforelda. Ein leiðin til þess að fjölga samkynhneigðum fósturforeldrum er því að mati Guðrúnar Hrefnu, sú að efla almenna fræðslu um málaflokkinn meðal almennings, samhliða því að auka og efla faglega kynningu á málefninu innan Samtakanna ´78.

Hún segir aukið aðgengi og upplýsingaflæði geta verið eina leið til að beina sjónum fleiri homma og lesbía að möguleikanum á að gerast fósturforeldrar í framtíðinni. „Það getur líka mögulega veitt samkynhneigðum einstaklingum, sem í einhverjum tilfellum hefðu annars ekki átt þess kost, tækifæri á að ala upp barn sem sitt eigið.“

Guðrún Hrefna Sverrisdóttir segir flesta þá sem hún ræddi við …
Guðrún Hrefna Sverrisdóttir segir flesta þá sem hún ræddi við hafa lýst jákvæðri reynslu af því að vera með börn í fóstri. Ljósmynd/Guðrún Hrefna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert