Skiptar skoðanir um trúarbyggingar

Hallgrímskirkja.
Hallgrímskirkja. mbl.is/Hjörtur

Flestir eru hlynntir því að Þjóðkirkjan fái að reisa trúarbyggingar á Íslandi en fæstir eru hlynntir byggingum Félags múslima. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR. Svo virðist sem lítil breyting sé á afstöðu Íslendinga til þess hvort mismunandi trúfélög fái að byggja trúarbyggingar hér á landi.

Líkt og í fyrri könnunum sögðust flestir svarendur vera hlynntir því að Þjóðkirkjan fái að reisa trúarbyggingar á Íslandi. Meirihluti svarenda var hlynntur því að Ásatrúarfélagið fái að reisa trúarbyggingar á Íslandi en færri voru hlynntir því að Búddistafélagið, Rússneska rétttrúnaðarkirkjan eða Félag múslima fái að reisa trúarbyggingar, að því er kemur fram í tilkynningu frá MMR.

Könnunin var framkvæmd dagana 20. til 26. september 2016 og var heildarfjöldi svarenda 985 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Ef litið er til eldri mælinga má sjá að þeim sem eru hlynntir því Þjóðkirkjan fái að reisa trúarbyggingar á Íslandi hefur farið fækkandi síðan mælingar hófust árið 2013.

Mikið fjaðrafok var við Ýmishúsið í sumar. Húsið er í …
Mikið fjaðrafok var við Ýmishúsið í sumar. Húsið er í eigu Stofnunar múslima. mbl.is/Árni Sæberg

„Af þeim sem tóku afstöðu sögðust flestir, eða 62,2%, vera fylgjandi því að Þjóðkirkjan fengi að byggja trúarbyggingar á Íslandi, en árið 2013 sögðust 67,2% fylgjandi því að Þjóðkirkjan fengi að byggja trúarbyggingar í landinu“ segir í tilkynningunni.

„Önnur trúfélög nutu minni stuðnings. Þannig sögðust 54,4% vera fylgjandi því að Ásatrúarfélagið fengi að byggja trúarbyggingar á Íslandi, 41,4% voru fylgjandi því að Búddistafélagið fengi að byggja trúarbyggingar, 35,5% voru fylgjandi því að Rússneska rétttrúnaðarkirkjan fengi að byggja trúarbyggingar og 32,4% voru fylgjandi því að Félag múslima á Íslandi fengi að byggja trúarbyggingar á Íslandi.“

42% andvígir trúarbyggingu Félags múslima

„Fæstir voru andvígir því að Þjóðkirkjan fengi að byggja trúarbyggingar á Íslandi (11,2%) en flestir sögðust vera andvígir því að Félag múslima fengi að byggja trúarbyggingar á Íslandi (42,1%). Hvað önnur trúfélög varðar voru 12,1% andvíg því að Ásatrúarfélagið fengi að byggja trúarbyggingar á Íslandi, 20,6% Búddistafélagið og 28,5% Rússneska rétttrúnaðarkirkjan.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert