Spá óveðri og „ausandi rigningu“

Ausandi rigning verður á morgun.
Ausandi rigning verður á morgun. mbl.is/Rax

Varað er við óveðri á morgun, miðvikudag. Fljótlega upp úr kl. 6 til 8 í fyrramálið má reikna með 30-35 m/s vindhraða í hviðum á Reykjanesbraut, undir Hafnarfjalli sem og á norðanverðu Snæfellsnesi, samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar. Lægir lítið eitt eftir hádegi, en hvessir aftur síðdegis. Spáð er stormi eða roki annað kvöld. Þá verður suð- eða suðsuðaustanátt með „ausandi rigningu um tíma,“ eins og það er orðað af veðurfræðingi Vegagerðarinnar.

Varasamar aðstæður verða til dæmis á Reykjanesbrautinni þegar vatn safnast í hjólför samfara hvassviðri þvert á veginn.

Veðurvefur mbl.is.

Í viðvörun Veðurstofunnar segir orðrétt:

Spáð er sunnan- og suðaustan stormi eða -roki (20-28 m/s) á landinu á morgun og á aðfaranótt fimmtudags. Það hvessir á vestur helmingi landsins strax í fyrramálið, en norðaustanlands annað kvöld. Mesti vindhraði verður á norðanverðu Snæfellsnesi, þar sem vindhviður geta farið yfir 40 m/s, en einnig verður mjög hvasst sums staðar á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesskaga. Einnig er búist við talsverðri úrkomu sunnan- og vestanlands.

Nánar um útlitið:

Sunnan úr hafi nálgast víðáttumikil og dýpkandi lægð, sem mun koma inn á Grænlandshaf snemma í fyrramálið. Skil lægðarinnar ganga síðan norður yfir landið síðdegis og hvessir talsvert í kjölfarið, en spáð er stormi eða roki (20-28 m/s) á vestanverðu landinu. Það hvessir talsvert á norðaustanverðu landinu annað kvöld en fer heldur að draga úr vindi og úrkomu sunnan- og vestanlands á fimmtudagsmorgun. Reikna má með sunnan hvassviðri eða -stormi (yfir 20 m/s) á Norðurlandi fram eftir fimmtudegi.

Ásamt storminum er spáð talsverðri rigningu um landið sunnan- og vestanvert á morgun, og fram yfir hádegi á fimmtudag, 20. október. Búast má við mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla á þessum svæðum og þar gæti sólarhringsúrkoma farið vel yfir 100 mm. Varað er við vexti í ám á Snæfellsnesi, á Hvítársvæðinu (bæði vestur og suður af Langjökli), kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul. Fólk er beðið um að sýna aðgát í nágrenni vatnsfalla og sérstaklega ef fara þarf yfir ár, þar sem vöð geta orðið varhugaverð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert