Ólafur Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar, gefur lítið fyrir gagnrýni Arnar Gunnlaugssonar, eiganda fyrirtækisins Bindir og stál, sem auglýsti í smáuglýsingum í Morgunblaðinu á laugardag eftir skörpum teljara til að þjálfa hafnfirska embættismenn í talningu á gámum.
Ólafur Ingi segir að gjaldtaka bæjar- og sveitarfélaga vegna gáma á iðnaðarlóðum tíðkist alls staðar og Hafnarfjarðarbær hafi horft til annarra sveitarfélaga, sem væru að gera nákvæmlega það sama, þegar reglur voru settar.
„Mosfellsbær, Akranes, Akureyri og fleiri bæjar- og sveitarfélög eru með samskonar gjaldtöku, og við í Hafnarfirði erum fjarri því að vera með hæstu gjaldtökuna fyrir gámana. Í sumum sveitarfélögum er gjaldtakan á milli 60 og 70 þúsund krónur á gám, en þó eftir stærð gáma. Hér í Hafnarfirði er gjald vegna gáma 31.780 krónur, hvort sem um 20 feta eða 40 feta gáma er að ræða,“ segir Ólafur Ingi í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.