Í gær rann út sá frestur sem Alþingi veitti landbúnaðarráðherra til að skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Stofnun hópsins átti að vera til þess að skapa „þjóðarsamtal“ og „þjóðarsátt“ um landbúnaðinn, að sögn formanns atvinnuveganefndar þingsins. Þetta kemur fram á vef Félags atvinurekenda.
„Við höfum ekkert heyrt. Okkur og fleirum vorum gefin fyrirheit um að við yrðum í þessum hópi. Maður hefði haldið að við ættum að fá bréf og eða ráðuneytið ætti að vera búið að gefa eitthvað út um þetta,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í samtali við mbl.is.
Í lögum um breytingar á búvörulögum og fleiri lögum vegna búvörusamninganna, sem Alþingi samþykkti 13. september síðastliðinn, segir í bráðabirgðaákvæði: „Eigi síðar en 18. október 2016 skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Tryggja skal aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni og skal henni lokið eigi síðar en árið 2019.“
„Ráðherra er gefinn einhver fimm vikna frestur til að skipa þennan hóp og meirihluti atvinnuveganefndar hefur væntanlega haft einhverja ástæðu fyrir því að hann vildi að hópurinn yrði skipaður fyrir þennan dag. Í því ljósi finnst okkur svona dálítið einkennilegt að það skuli ekki hafa gengið eftir,“ segir Ólafur ennfremur en samráðshópurinn er lykilatriði að mati Ólafs:
„Þetta er mjög mikið grundvallaratriði í nefndaráliti meirihlutans, að þessi samráðshópur yrði settur á fót til að koma á þessu svokallaða þjóðarsamtali og vonandi þjóðarsátt um landbúnaðinn.“
Ólafur telur að það væri ákaflega undarlegt ef samráðshópurinn hefði hreinlega gleymst. „Þetta er svo mikið atriði að það er einkennilegt ef það hefur gleymst.“