„Hugur minn er hjá þessu fólki sem á hvergi skjól,“ segir Ingvi Skjaldarson, flokksleiðtogi hjá Hjálpræðishernum, en síðan þeir fluttu úr húsnæði sínu í Kirkjustræti hafa þeir ekki getað haldið úti súpueldhúsi sem þeir voru frægir fyrir og útigangsfólk stólaði á.
Til að mæta þessari þörf er Hjálpræðisherinn að reyna að koma á fót súpustrætó.
„Við erum núna með súpueldhús í öðru húsnæði sem við erum með uppi í Mjódd þar sem við höfum rekið fjölskyldu- og fjölmenningarhús. En utangarðsmenn eiga ekki leið þangað. Þeir hafast frekar við miðsvæðis,“ segir Ingvi í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.