Bar ekki saman um veigamikil atriði

Aurum málið í Héraðsdómi
Aurum málið í Héraðsdómi mbl.is/Árni Sæberg

Vitnisburður forsvarsmanna Aurum skartgripakeðjunnar árið 2008 og forsvarsmanna fjárfestingafélags frá Dubai sem ætlaði að kaupa hlut Fons í keðjunni bar ekki saman um veigamikil atriði þegar vitnaleiðslur héldu áfram í Aurum-málinu fyrir héraðsdómi í dag.

Fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Damas frá Dubai, sem ætlaði sér að kaupa um þriðjungshlut í Aurum árið 2008 og yfirmaður í fjárfestingabanka í Dubai sem kom að áætluðum kaupum á þeim tíma sögðu að viðræður um verð á Aurum-bréfunum hafi í raun aldrei verið rætt milli aðila þó það hafi verið skrifað á forsamning (e. head of terms) sem gerður var.

Ekki bindandi samningur heldur rammi

Vísuðu þeir til þess að samningurinn væri ekki bindandi heldur frekar rammi utan um viðskiptin og að samræður um verð hafi ekki átt sér stað. Einnig að áreiðanleikakönnun á verðmæti bréfanna hafi ekki verið gerð þar sem í raun hafi málið aðeins verið skoðað að litlu leyti en alls ekki í þaula.

Aðspurðir um ástæður þess að fallið hafi verið frá kaupunum á þriðja ársfjórðungi ársins 2008 sögðu þeir að verð á bréfunum hafi verið of hátt og þess vegna hafi ekki verið haldið áfram í viðræðum.

Vitnisburður stangast á við gögn málsins

Þetta stangast á við vitnisburð stjórnarformanns og forstjóra Aurum sem komu báðir fyrir dóminn í dag. Sögðu þeir að mikill tími og fjármunir hafi farið hjá bæði Damas og Aurum í að vinna að kaupunum. Þannig hafi stjórnendur Aurum farið fjölmargar ferðir til Dubai og Tælands árið 2008 til að skoða framleiðslu Damas eða kynna fyrirtækið fyrir forsvarsmönnum Damas.

Þá hefur í málinu verið lögð fram áreiðanleikakönnun, bæði lögfræðileg og fjárhagsleg, sem Earnst & Young vann fyrir Damas og félagið byggir svo verðmat sitt á upp á 106 milljónir punda. Er það í andstöðu við framburð forstjórans fyrir dóminum.

Allt í einu poppaði upp 60-70 milljón punda tala

Þá var vísað til þess að sett hafi verið fram verðhugmynd upp á 100 milljónir punda í viðræðum milli aðila sem hafi meðal annars komið fram í bréfi frá forstjóra Damas til forstjóra Baugs og í forsamningnum sem gerður var. Vörn ákærðu í málinu byggir að stórum hluta á því að verðmæti bréfa Aurum hafi verið á þessu bili því það þýði að lánaviðskipti til félagsins FS38 vegna viðskiptanna hafi í raun bætt tryggingarstöðu Glitnis banka. Saksóknari telur matið aftur á móti hafa verið allt of hátt og að með þessu hafi bankinn lánað fjármuni úr bankanum án þess að fá viðhlýtandi tryggingar.

Það kom því nokkuð á óvart þegar forstjóri Damas sagði í gegnum síma í dómsal í dag að þeir hefðu talið verðmiða upp á 60-70 milljónir punda vera allt of háan. Sagði hann stjórn Damas hafa talið verðið vera yfirverð. Aðspurður um hvaða könnun hafi verið framkvæmd af hálfu Damas sagði hann að það hafi aðeins verið fyrsta stigs áreiðanleikakönnun.

Fjöldi verðmata og verðáætlana

Í málinu hafa verið lögð fram nokkur verðmöt eða verðáætlanir fyrir Aurum. Má þar nefna verðmat Capacents sem saksóknari vill meina að sýni ofmat á verði Aurum bréfanna, innanhúsmat frá Glitni, verðmat sem Kaupþing gerði, áreiðanleikakönnun sem Damas gerði og svo verðmætið sem kom fram í forsamningnum og öðrum samskiptum Damas og Aurum.

Don McCarthy sem var stjórnarformaður Aurum á þessum tíma fór í nokkuð löngu máli yfir ástæður þess sem hann teldi þær áætlanir sem Aurum hafi verið með á þessum tíma um tekjustreymi trúverðugar og þar með góð gögn undir þau verðmöt sem verjendur ákærðu í málinu telja raunhæf möt. Í svipaðan streng tók Justin Stead, forstjóri Aurum á þeim tíma og Jeff Blue sem var stjórnarmaður Baugs í Aurum.

Voru allir aðilar sammála um að mikil samlegðaráhrif gætu verið á samruna fyrirtækjanna, en sem fyrr segir töldu menn verðhugmyndirnar misraunhæfar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert