Tugir farþega á heimleið frá Sikiley með Primera Air síðastliðinn fimmtudag horfðu upp á flugvallarstarfsmenn afferma vélina áður en tekið var á loft. Farþegi í vélinni segir að töskurnar muni ekki skila sér fyrr en síðla næstu viku samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu.
„Þetta var þannig að þegar allt var klappað og klárt að leggja af stað heim á fimmtudaginn þá verða farþegarnir varir við það að töskunum er mokað út og svo er lagt af stað. Það skiluðu sér aðeins örfáar töskur en flestir fengu ekkert,“ sagði farþeginn, sem ekki vildi láta nafns síns getið.
Farþegarnir voru í skipulagðri á vegum ferðaskrifstofunnar Heimsferða. Hann segir að erfitt hafi verið að fá upplýsingar frá flugfélaginu og ferðaskrifstofunni um stöðu mála, skilaboðin séu misvísandi.
„Þetta hefur verið endalaus hringavitleysa. Ég fékk tölvupóst um það að ég þyrfti að kvarta til höfuðstöðvanna í Lettlandi með tölvupósti sem ég yrði að skrifa á ensku.
„Þær koma ekki fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku. Þeir sögðu á mánudagskvöldið, en svo er kominn tölvupóstur sem segir að þetta verði á föstudegi í næstu viku.“
Ekki náðist í forsvarsmenn Primera Air eða Heimsferða við skrif fréttarinnar.