Fór á hvolf ofan í Hvammsá

Bíllinn á hvolfi ofan í ánni.
Bíllinn á hvolfi ofan í ánni. Ljósmynd/Aðsend

Bílvelta varð á veginum í Blönduhlíð í Skagafirði á móts við bæinn Flugumýrarhvamm skömmu fyrir klukkan fimm í dag. Tveir erlendir ferðamenn á þrítugsaldri voru í bílnum.

Að sögn lögreglunnar á Norðurlandi vestra liggur ekki fyrir hvers vegna bíllinn fór út af veginum en akstursaðstæður voru góðar.

Bíllinn fór í loftköstum út af veginum, endastakkst og fór á hvolf ofan í Hvammsá. Fólkið náði að skríða út úr bílnum án nokkurra meiðsla.  

Að sögn lögreglunnar er bíllinn gjörónýtur en hún segir það með ólíkindum að fólkið hafi ekkert meiðst. Lögreglan bendir á að ferðamennirnir hafi verið í bílbeltum og þau hafi fyrst og fremst komið þeim til bjargar.

Auk þess að hvetja ökumenn til að nota bílbelti vill lögreglan brýna fyrir þeim að fara varlega því hálka er byrjuð að myndast víða á vegum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert