Þingkona ósátt við loftslagshóp

Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til­gang­ur með lofts­lagsrýni hóps­ins Par­ís 1,5 á stefnu stjórn­mála­flokk­anna í lofts­lags­mál­um er að hampa ein­stök­um flokk­um en út­hrópa aðra, að sögn Sig­ríðar And­er­sen, þing­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins. Henn­ar flokk­ur fær fall­ein­kunn en vinstri flokk­arn­ir góða þrátt fyr­ir það sem hún kall­ar „um­hverf­is­slys“ þeirra.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn fékk aðeins 0,7 í ein­kunn í svo­nefndri lofts­lagsrýni flokk­anna sem Par­ís 1,5, áhuga­hóp­ur um lofts­lags­mál, tók sam­an. Við matið á ein­kunn var byggt á nokkr­um þátt­um sem hóp­ur­inn taldi mik­il­væga, eins og af­stöðu til olíu­vinnslu á Dreka­svæðinu og mark­miði um sam­drátt í los­un gróður­húsaloft­teg­unda.

Frétt Mbl.is: Telja þrjá flokka stand­ast lofts­lags­próf

Hóp­ur­inn birti raun­ar upp­færða rýni í gær þar sem ein­kunn Sjálf­stæðis­flokks­ins var lækkuð í -0,1 og var vísað til stefnu­leys­is varðandi minnk­andi los­un og vilja til olíu­vinnslu.

Við þetta er Sig­ríður ekki sátt, en hún seg­ist í til­kynn­ingu til fjöl­miðla og í grein á vefsíðu sinni hafa sent hópn­um at­huga­semd­ir sem ekki hafi verið tekið til­lit til. Í at­huga­semd­un­um sem hún birt­ir gagn­rýn­ir hún að ekki hafi verið tekið til­lit til þess sem flokk­arn­ir hafi gert „held­ur aðeins fag­ur­gala kort­eri í kosn­ing­ar“.

Loftslagsrýni Parísar 1,5 á stefnu stjórnmálaflokkanna í loftslagsmálum fyrir þingkosningarnar …
Lofts­lagsrýni Par­ís­ar 1,5 á stefnu stjórn­mála­flokk­anna í lofts­lags­mál­um fyr­ir þing­kosn­ing­arn­ar 2016. graf/​Par­ís 1,5

Skrifuðu und­ir Par­ís­ar­sam­komu­lagið og fjallað um lofts­lag

Bend­ir hún á að flokk­arn­ir sem hún kall­ar vinstri­flokk­ana hafi sett millj­arða af skatt­fé al­menn­ings í málmbræðslu á Bakka, beint fólki yfir í meira meng­andi bíla með breyt­ing­um á skött­um á eldsneyti og staðið að því að veita olíu­leyfi á Dreka­svæðinu. Þrátt fyr­ir það fái þeir hæstu ein­kunn hjá Par­ís 1,5. 

Stjórn­ar­flokk­arn­ir fái hins veg­ar fall­ein­kunn þó að þeir hafi und­ir­ritað Par­ís­ar­sam­komu­lagið og staðið vörð um nú­ver­andi fisk­veiðistjórn­un­ar­kerfi sem hafi skilað 38% sam­drætti á los­un gróður­húsaloft­teg­unda frá sjáv­ar­út­vegi.

Sig­ríður seg­ist jafn­framt sjálf hafa fjallað um los­un gróður­húsaloft­teg­unda frá fram­ræstu landi í ræðu og riti og hún hafi meðal ann­ars staðið fyr­ir opn­um fundi um end­ur­heimt vot­lend­is og lofts­lags­mál.

„Það eru því gróf ósann­indi að þess­um mál­um hafi ekki verið sinnt af stjórn­ar­flokk­un­um og fram­bjóðend­ur þeirra hafi ekki tekið málið upp í aðdrag­anda kosn­inga. Ég hygg að það séu oft á tíðum óvönduð vinnu­brögð af þessu tagi sem gera fólk af­huga um­hverf­is­mál­um á borð við lofts­lags­mál­in. Fólk fær á til­finn­ing­una að mál­in hafi verið her­tek­in af óbil­gjörn­um hóp­um sem nota þau til að ná fram ýms­um öðrum póli­tísk­um mark­miðum sín­um,“ skrif­ar Sig­ríður á vefsíðu sína.

Hef­ur talað gegn græn­um skött­um 

Sig­ríður hef­ur fjallað tölu­vert um los­un á gróður­húsaloft­teg­und­um frá fram­ræstu landi í kjöl­far þess að um­hverf­is­ráðuneytið svaraði fyr­ir­spurn henn­ar um áætlaða los­un síðasta haust. Hef­ur hún meðal ann­ars haldið því fram að aðgerðir til að draga úr los­un frá bíl­um hafi lítið að segja til að draga úr heild­ar­los­un því hún sé aðeins hlut­falls­lega lít­il í sam­an­b­urði við fram­ræsta landið.

Frétt Mbl.is: Batn­ar ekki með öðru verra

Í grein sem birt­ist í Morg­un­blaðinu í fyrra lagði hún meðal ann­ars til að græn­ir skatt­ar á bíla og eldsneyti sem fyrri rík­is­stjórn lagði á yrðu af­numd­ir. Í til­efni þeirr­ar grein­ar sagði Hlyn­ur Óskars­son, sér­fræðing­ur hjá Land­búnaðar­há­skól­an­um, að sjálfsagt væri að vinna að end­ur­heimt vot­lend­is til að draga úr los­un en varaði við því að gera það að eina fram­lagi Íslands.

Und­ir það tók Árni Finns­son, fram­kvæmda­stjóri Nátt­úru­vernd­ar­sam­taka Íslands. Ísland yrði eins og önn­ur lönd að leita allra leiða til að draga úr los­un frá sam­göng­um.

At­huga­semd­ir Sig­ríðar And­er­sen við lofts­lagsrýni Par­ís­ar 1,5

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert