Raforkusamningurinn felur ekki í sér ríkisaðstoð

Norðurál á Grundartanga. Endurnýjaður samningur fyrirtækisins og Landsvirkjunar þykir í …
Norðurál á Grundartanga. Endurnýjaður samningur fyrirtækisins og Landsvirkjunar þykir í samræmi við sambærilega samninga raforkufyrirtækja á Norðurlöndunum. mbl.is/Árni Sæberg

Endurnýjun samnings Norðuráls við Landsvirkjun um kaup á raforku felur ekki í sér ríkisaðstoð, þar sem samningurinn er gerður á markaðskjörum. Þetta er niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem tilkynnt var í dag.

Það var í maí sem íslensk stjórnvöld tilkynntu ESA um þriðju endurnýjun samnings Landsvirkjunar um sölu raforku til álvers Norðuráls á Grundartanga í Hvalfirði, að því er segir í fréttatilkynningu frá ESA.

Upprunalegur samningur fyrirtækjanna tveggja var undirritaður árið 1997 og hefur nú verið framlengdur tvisvar. „ESA lagði mat á samningsskilmálana og þær breytingar sem gerðar voru frá fyrri samningum. ESA kynnti sér auk þess arðsemisútreikninga sem Landsvirkjun og Norðurál lögðu til grundvallar samningnum,“ segir í tilkynningunni.

Í þeim gögnum sem Landsvirkjun lagði fram við EFTA er að mati stofnunarinnar sýnt fram að að samningurinn sé í samræmi við sambærilega samninga sem önnur raforkufyrirtæki á Norðurlöndunum hafi gengist undir. „Endurnýjaður samningur er tengdur við markaðsverð raforku á Nord Pool raforkumarkaðnum og kemur það í stað álverðstengingar í gildandi samningi. Þá er samningurinn arðsamur og skilmálar hans slíkir að einkarekið fyrirtæki myndi samþykkja hann við sambærilegar aðstæður.“

Samningurinn felur því ekki í sér ríkisaðstoð, að mati ESA.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert