Risaskref fyrir heilbrigðisþjónustu

Frá framkvæmdum við Landspítalann í dag.
Frá framkvæmdum við Landspítalann í dag. mbl.is/Golli

Hafist var handa í dag við að færa tæknibúnað, sem nauðsynlegur er fyrir nýjan jáeindaskanna Landspítalans, ofan í jörðu við spítalann. Fluttir verða þrír gámar frá Sundahöfn sem saman innihalda fyrstu og stærstu eininguna af þremur.

„Meðal annars er þetta rafeindahraðall sem býr til þau geislavirku efni sem nauðsynleg eru til að jáeindaskanninn geti starfað,“ segir Guðmundur Hreiðarsson, framkvæmdastjóri HealthCo, sem fer með umboð lækningatækja General Electric hér á landi.

Guðmundur segir flutningana risastórt skref fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu en bendir á að skanninn komi síðar á árinu, ásamt sérstakri rannsóknarstofu.

„Við erum að losa fyrsta gáminn núna, en við hífum þetta í gegnum gat þar sem búið er að smíða nokkurs konar byrgi. Svo er átta tonna steypulok híft ofan á gatið og því þannig lokað,“ segir hann og bætir við að alls verði um sextíu tonn efnis flutt niður í byrgið í dag.

Fjöldi manna er nú að störfum við húsnæði Landspítalans.
Fjöldi manna er nú að störfum við húsnæði Landspítalans. mbl.is/Golli

Lykiltæki við umönnun krabbameinssjúkra

Eins og mbl.is greindi frá í ágúst á síðasta ári eru jáeindaskanninn og byggingin utan um hann tilkomin fyrir tilstilli peningagjafar Íslenskrar erfðagreiningar, en verðmæti gjafarinnar nemur rúmum 840 milljónum króna.

Frétt mbl.is: Gefur þjóðinni jáeindaskanna

Í tilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu af því tilefni sagði að ís­lenskt heil­brigðis­kerfi hefði verið vannært um skeið og væri illa tækj­um búið. Eitt af því sem það hefði vantað væri já­eindaskanni, sem væri orðinn lyk­il­tæki við umönn­un krabba­meins­sjúkra.

Flókinn búnaður fylgir skannanum og því eru ófáir kaplar sem …
Flókinn búnaður fylgir skannanum og því eru ófáir kaplar sem leggja þarf næstu vikur. mbl.is/Golli

Notaður meira hér á landi

Páll Matth­ías­son, for­stjóri Land­spít­alans, tók svo í janúar á þessu ári fyrstu skóflu­stung­una að hús­næðinu sem hýsa mun skannann, en það er samtengt spítalanum að norðanverðu.

Frétt mbl.is: Bylting í greiningu sjúkdóma

Jáeindaskanni er fyrst og fremst nýttur til greiningar á krabbameini, bæði til að finna meinið fyrr og til að finna útbreiðslu þess og þar með aðferðir til að meðhöndla það. Um 200 manns voru sendir í jáeindaskanna erlendis á árinu 2014 en ljóst þykir að notkunin verði mun meiri með tilkomu nýja skannans hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert