„Þetta er mikilvægur baráttudagur og brýnt að jafna laun kynjanna,“ segir Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara. Hann segir mikla samstöðu ríkja innan stéttarinnar á þessum degi um að vekja athygli á kynbundnum launamun.
Hann ætlar sjálfur á samstöðufundinn á Austurvelli sem hefst í dag kl. 15.15 eftir að hann verður búinn að ná í barnið sitt í leikskóla í Hafnarfirði.
„Það er í raun ekki flókið að leiðrétta þennan launamun heldur er flókið að fá samstöðu um að leysa vandann,“ segir Haraldur um launamun kynjanna.
Hann bendir einnig á mögulega leið til að útrýma kynbundnum launamun; að fjölga karlmönnum í þeim störfum sem eru talin „hefðbundin“ kvennastörf og fjölga konum í þeim störfum sem eru talin „hefðbundin“ karlastörf. „Þetta er hægt fræðilega séð en myndi taka langan tíma,“ segir Haraldur enn fremur.