Mjölnir fékk Keiluhöllina á síðustu stundu

Jón Viðar Arnþórsson hjá Mjölni
Jón Viðar Arnþórsson hjá Mjölni Sigurgeir Sigurðsson

Íþróttafélagið Mjölnir tryggði sér í morgun leigu á húsnæði Keiluhallarinnar í Öskjuhlíð til 15 ára. Komist var að samkomulagi einni mínútu áður en uppboð á húsnæðinu átti að hefjast.

„Þetta kom í ljós klukkan tíu í morgun, einni mínútu áður en átti að bjóða upp húsið. Það voru allir mættir til að bjóða í það og við héldum að þetta væri farið frá okkur,“ sagði Jón Viðar Arnþórsson, stjórn­andi og formaður Mjöln­is, í samtali við mbl.is. 

„Það hefur verið brjáluð vinna síðustu tvö ár að ná húsnæðinu og eina mínútu í uppboð var það afturkallað. Arnar Gunnlaugsson bjargaði þessu ásamt sínum fleirum. Þeir unnu í þessu í alla nótt og allan morgun og það tókst.“

Þurftu að vísa frá í hrönnum

Jón Viðar segir að stefnt sé að því að flytja um áramótin og framkvæmdir hefjist strax á morgun. Hann segir mikla stemningu vera fyrir flutningunum. 

„Það hefur verið svakaleg óvissa í marga mánuði og lítið sofið en núna er fólk að springa úr hamingju. Það er stór hópur af fólki sem býr í Kópavogi, Garðabæ, Breiðholtinu og Grafarholtinu sem hefur ekki getað æft hjá okkur vegna fjarlægðar.“

Nauðsynlegt hefur verið að stækka við starfsemina, þar sem vöxturinn í greininni hefur verið gríðarlegur. 300 manns voru skráðir í fé­lagið þegar húsnæðið á Selja­vegi­ var tek­ið í notk­un árið 2011 en í dag eru iðkend­ur um 1.400 tals­ins.

„Þetta sprakk fyrir tveimur til þremur árum. Við höfum þurft að vísa fólki frá í hverjum einasta mánuði, bæði börnum og fullorðnum, þannig að við hoppuðum hæð okkar þegar þetta kláraðist í morgun.

Stefna á 3.500 iðkendur

Keiluhöllin er um tvisvar sinnum stærri en núverandi húsnæði á Seljavegi. Jón Viðar segir að nú sé innistæða fyrir því að fjölga iðkendum mikið. Stefnt sé að því að fara hratt upp í 2.000 og markmiðið er 3.500. Aðstaðan býður upp á mikla möguleika umfram æfingasali. 

„Við verðum með sex sali, bar, hárgreiðslustofu, verslun og nuddstofu, það er búið að skipuleggja þetta allt í þaula. Síðan er Öskujuhlíðin og skógurinn í kring frábær staður fyrir útiæfingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert