Rútan var á sumardekkjum

Framdekk rútunnar, frá vettvangi slyssins í dag.
Framdekk rútunnar, frá vettvangi slyssins í dag.

Rútan sem valt út af Þingvallavegi í morgun, með 42 manns innanborðs, var á sumardekkjum samkvæmt öruggum heimildum mbl.is. 15 farþegar voru fluttir slasaðir úr rútunni á Landspítalann, þar af tveir á gjörgæsludeild.

Sjá umfjöllun mbl.is: Rútuslys á Þingvallavegi

Eiður Ármannsson, framkvæmdastjóri Dekkjahússins, er einn þeirra sem í samtali við mbl.is segja rútuna hafa verið á sumardekkjum.

„Þetta eru hrein og klár sumardekk, langriffluð og lokuð í kantinum,“ segir Eiður eftir að hafa fengið að líta mynd sem ljósmyndari mbl.is tók, hér að ofan.

Skráður háll í sama mund og slysið varð

Skúli Þórðarson sérfræðingur hjá Vegagerðinni segir að mokstri hafi verið lokið á Mosfellsheiði rétt fyrir klukkan hálf átta í morgun, þar sem hreinsað var krap eftir snjókomu næturinnar.

Vegurinn hafi í kjölfarið verið merktur greiðfær í kerfi Vegagerðinnar, sem sjá má á vef hennar. Upp úr níu hafi þá komið inn annar úrkomubakki á svæðið, og því verið fylgst með honum.

„Klukkan 10.17 er kallaður aftur út mokstursbíll á Mosfellsheiði, því þá benda upplýsingar á myndavélum til þess að það sé farið að safnast á veginn aftur. Vegurinn er um leið skráður háll og með éljagang.“

Þess má geta að lögregla fékk tilkynningu um rútuslysið klukkan 10.18, eða aðeins mínútu síðar.

Aðspurður segir Skúli að Vegagerðin hafi undanfarna daga ítrekað varað við hálku og snjóþekju til heiða.

„Veturinn er að skella á og viðvaranirnar fylgja þessum árstíma.“

Rútan fór út af Þingvallavegi og lenti á hliðinni.
Rútan fór út af Þingvallavegi og lenti á hliðinni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert