Olli banaslysi á 124 km hraða

Slysið varð við Hólá í Öræfum.
Slysið varð við Hólá í Öræfum. mbl.is/RAX

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur komist að þeirri niðurstöðu að annar ökumanna í hörðum árekstri við einbreiða brú yfir Hólá í Öræfum hafi sýnt af sér mikla óvarkárni og ekið allt of hratt og valdið slysinu sem kostaði ökumann hinnar bifreiðarinnar lífið.

Slysið átti sér stað 26. desember síðastliðinn um miðjan dag þar sem bílaleigubifreið af tegundinni Toyota RAV4 ók allt of hratt að einbreiðri brú yfir Hólá úr austurátt og rakst þar á hlið bílaleigubifreiðar af tegundinni Kia Ceed sem kom úr suðurátt. Ökumaður Kia-bifreiðarinnar, 44 ára karlmaður, lést þar sem mikil aflögun varð inni í ökumannsrými bifreiðarinnar.

GPS-staðsetningartæki var í báðum ökutækjum. Samkvæmt því var ökuhraði Kia-bifreiðarinnar 63 km/klst. en Toyota-bifreiðinni var ekið á 124 km/klst. inn á einbreiðu brúna.

Segir einnig í skýrslu nefndarinnar að báðir ökumenn hafi ekið yfir nokkrar einbreiðar brýr á ferð sinni rétt fyrir slysið. Toyota-bifreiðin hafði til að mynda farið yfir einbreiða brú yfir Stígá rúmri mínútu áður en slysið varð, en aðstæður þar voru svipaðar og á slysstað. Merkingar um einbreiða brú voru fyrst í rúmlega 250 metra fjarlægð bæði austan og vestan brúarinnar yfir Hólá, sem og gátskildir bæði á vegriði og um 40 metra frá henni. Þá voru yfirborðsmerki máluð um þrengingu á veginum í um 100 metra fjarlægð frá brúnni beggja vegna.

698 einbreiðar brýr

Mikil fjölgun erlendra ferðamanna til landsins hefur á örfáum árum valdið aukinni umferð yfir brúna yfir Hólá; meðaltalsumferð á sólarhring að vetrarlagi var rétt um 100 ökutæki árið 2011 en tæplega 300 árið 2015. Að sumarlagi var umferðin tæp 1.300 ökutæki. „Það er því nokkuð ljóst að á komandi árum mun mikill fjöldi ökumanna, sem ekki eru staðkunnugir og hafa jafnvel aldrei áður ekið yfir einbreiðar brýr á þjóðvegum, aka um vegi landsins,“ segir í skýrslunni en 698 einbreiðar brýr eru nú á þjóðvegum landsins og þar af nokkrir tugir á hringveginum.

Rannsóknarnefndin beinir því þeim tilmælum til Vegagerðarinnar að merkja einbreiðar brýr vel, með góðum fyrirvara, og jafnvel lækka hámarkshraðann. Þótt markvisst sé unnið að því að fækka einbreiðum brúm muni það verkefni taka tíma og á meðan þurfi að yfirfara þessi mál með erlenda ferðamenn í huga.

Blikkljós fara upp á næstunni

„Það er búið að bæta yfirborðsmerkingar og skiltamerkingar, en það var gert strax í kjölfar slyssins,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, spurður um viðbrögð stofnunarinnar við athugasemdum Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

„Það sem er þó mest knýjandi er að setja upp blikkljós á flestar þessara brúa á suðausturhorninu. Það hefur dregist svolítið en mun gerast á næstunni,“ bætir hann við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert