Krafan um styttra kjörtímabil óraunhæf

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa fundað undanfarið um mögulegt samstarf að loknum …
Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa fundað undanfarið um mögulegt samstarf að loknum kosningum. mbl.is/Golli

Píratar eru tilbúnir til að falla frá kröfunni um að styttra kjörtímabil, þar sem þær „víðtæku kerfisbreytingar“ sem gerð er krafa um, fela í sér að krafan um styttra kjörtímabil kann að vera óraunhæf. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Píratar sendu frá sér eftir fund stjórnarandstöðuflokkanna í dag.

Píratar höfðu áður sett fram þá kröfu að eftir kosningar yrði mynduð ríkisstjórn um innleiðingu nýrrar stjórnarskrár og kjörtímabilið ætti því að vera styttra en hin hefðbundnu fjögur ár.

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa undanfarið fundað um mögulegt stjórnarsamstarf að loknum kosningum. Í tilkynningu Pírata segir að formenn flokkanna telji fulla ástæðu til að kanna möguleika á myndun meirihlutastjórnar, fái flokkarnir til þess umboð í komandi kosningum. Ekki hafi hins vegar gefist kostur á að fara dýpra í einstök mál, vegna þess hve skammur tími var til stefnu. 

„Sameiginleg yfirlýsing framboðanna og efni viðræðnanna hingað til sé hins vegar skýr skuldbinding um að hægt sé að færa samstarfsviðræður á næsta stig,“ fái flokkarnir nógu sterkt umboð til þess að loknum kosningum að því er segir í tilkynningunni.

Skýr samstaða hafi verið á milli flokkanna um  mörg mikilvæg mál og allir flokkarnir hafi tekið afstöðu með því að ný stjórnarskrá verði samþykkt á komandi kjörtímabili.

Þá vilji allir flokkarnir „sjá aukið gagnsæi, skýrari verkferla og endurbætur á stjórnkerfi landsins. Auk þess eru allir flokkarnir sammála um mikilvægi þess að efnahagsstjórn verði með ábyrgum hætti, og að raunverulegur efnahagslegur, pólitískur og félagslegur stöðugleiki skapist í landinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert