Nagladekkin óþörf í höfuðborginni

Hálku er þegar farið að gæta í höfuðborginni en samkvæmt …
Hálku er þegar farið að gæta í höfuðborginni en samkvæmt borgaryfirvöldum eru aðrir valkostir í stöðunni en nagladekk. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Reykjavíkurborg hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að nagladekk séu ekki æskileg innan borgarmarkanna; þau spæni upp malbikið, dragi úr loftgæðum og valdi hávaða. Þá auki þau kostnað við viðhald gatna í höfuðborginni og eldsneytiskostnað ökumanna.

Nagladekk eru leyfileg í Reykjavík á tímabilinu 1. nóvember til 15. apríl, en í tilkynningunni segir að þar sem nú sé krafist þriggja millimetra lágmarksdýptar mynsturs á vetrardekkjum fólksbifreiða séu nagladekk óþörf innan borgarmarkanna.

Tilkynning borgarinnar í heild:

Nagladekk eru leyfileg í Reykjavík á tímabilinu 1. nóvember til 15. apríl ár hvert en notkun þeirra er ekki æskileg. Nagladekk auka kostnað á viðhaldi gatna í Reykjavík og eldsneytiskostnað bifreiða, þau valda óþarfa hávaða og draga úr loftgæðum.

Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja er nú krafist þriggja millimetra lágmarksdýptar mynsturs á vetrardekkjum fólksbifreiða. Þetta bætir venjuleg vetrardekk og gerir nagladekk óþörf innan borgarmarka.

Þeim skiptum sem svifryk (PM10) fer yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík hefur fækkað á undanförnum árum. Svifryk hefur farið átta sinnum yfir sólarhringsheilsuverndarmörk, sem eru 50 míkrógrömm á rúmmetra (50 µg/m3),  á þessu ári við Grensásveg. Líkleg ástæða er meiri úrkoma en áður var í borginni og að dregið hefur úr hlutfalli malbiks í svifryki.

Hlutfall negldra dekkja var síðast talið miðvikudaginn 13. apríl 2016 og reyndust 31,1% ökutækja vera á negldum dekkjum og 68,9% voru á öðrum dekkjum.  Ekki er leyfilegt að vera á negldum dekkjum eftir 15. apríl og fram til 1. nóvember. Hlutfall negldra dekkja var hæst tæplega 39% síðasta vetur. Dregið hafði úr hlutfalli nagladekkja fram að þeim tíma frá 2001.

Margskonar gripsterkar tegundir af vetrardekkjum standa ökumönnum til boða: heilsársdekk, harðkornadekk, loftbóludekk og harðskeljadekk. Mikilvægt er að kynna sér málin vel áður en skipt er yfir á ný dekk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert