Segir Framsókn hafa unnið varnarsigur

Lilja Alfreðsdóttir á kosningavöku Framsóknarflokksins.
Lilja Alfreðsdóttir á kosningavöku Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert

„Ég myndi segja að við höfum unnið varnarsigur, við fengum ákveðinn meðbyr á lokasprettinum þegar málefni sem við vorum að kynna og það hvernig við nálguðumst kosningabaráttuna fór að skila sér. Nú horfum við fram á veginn og munum fara yfir stöðuna,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknaflokksins, um niðurstöðu kosninganna.

Framsóknarflokkurinn fékk 11,5% fylgi samkvæmt lokatölum, sem jafngildir átta þingmönnum. Flokkurinn tapar því heilum 21,9% fylgi frá kosningunum 2013 og ellefu þingmönnum. Lilja segir að fylgistapið megi rekja til aðdraganda kosninganna. 

„Framsóknarflokkurinn vann sögulegan sigur í kosningunum 2013 og þetta er mikið fylgistap síðan þá. En á það verður að horfa að Framsóknarflokkurinn var í stjórnarandstöðu á árunum 2009-2013 þar sem hann talaði um skuldamál heimilanna í fjögur ár þannig að hann fór mjög vel undirbúinn í þær kosningar. Nú var kosningabaráttan mjög stutt og augljóslega ekki jafnvel undirbúin.“

Erfitt að koma málefnum að

Í kosningavikunni setti Framsóknarflokkurinn fram tillögur um að leita annarrar staðsetningar fyrir uppbyggingar nýs spítala. Að mati Lilju snerist lokasprettur kosninganna fremur um kosningabandalög heldur en málefnin. 

„Það var þannig að í þessari kosningabaráttu kom Sjálfstæðisflokkurinn með hugmynd um að þjóðin fengi hlut í bönkunum og Samfylkingin með hugmynd um fyrirframgreiddar vaxtabætur en það var eins og mikið af málefnum næði ekki í gegn. Ég tala nú ekki um eftir að Píratar komu með sitt útspil, þá snerist kosningabaráttan um stjórnarmyndunarviðræður. Það var hægara sagt en gert að koma málefnum í gegn.“

Í kosningabaráttunni hafa sumir flokkar fullyrt hverjum þeir vilji og vilji ekki starfa með og virðist sú röðun koma illa við Framsóknarflokkinn.

„Stjórnarmyndunarviðræðurnar munu miðast út frá málefnum sem viðkomandi flokkar hafa og að það sé hægt að búa til traust á milli forystufólks.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert