Frumvarp sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fram um breytingar á kjararáði en var ekki afgreitt fyrir þinglok hefði ekki haft áhrif á ákvörðun ráðsins um laun kjörinna fulltrúa nú. Rífleg launahækkun til þingmanna og ráðherra sem ákveðin var á kjördag hefur vakið töluverða athygli.
Ákvarðanir kjararáðs hafa löngum vakið reiði í samfélaginu og á því var engin undantekning þegar tilkynnt var að laun þingmanna yrðu hækkuð um 338 þúsund krónur og laun forseta og ráðherra um nærri því hálfa milljón króna strax í kjölfar alþingiskosninganna sem fóru fram á laugardag.
Frétt Mbl.is: Jafna laun þingmanna og dómara
Meðal annars hefur verið gagnrýnt að þingmenn, ráðherrar og forseti hafi þegar fengið 7,15% launahækkun í sumar þegar kjararáð ákvað almenna hækkun launa þeirra sem undir það heyra.
Jónas Þór Guðmundsson, formaður kjararáðs, vildi ekkert tjá sig í samtali við Mbl.is, hvorki um ákvörðunina efnislega né tímasetningu hennar, sem hefur vakið mikla reiði. Frá því að kjararáð tók við ákvörðunarvaldi um laun æðstu ráðamanna árið 2006 eru ekki önnur dæmi um að það hafi ákvarðað um laun þeirra á kjördag. Samkvæmt lögum er nefndin sjálfstæð og ræður sjálf hvenær hún tekur ákvarðanir.
Kjararáð er sjálfstætt ráð sem ákveður laun og starfskjör æðstu embættismanna ríkisins sem geta ekki ráðist á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu, að því er kemur fram á vefsíðu þess. Í þeim hópi eru alþingismenn, ráðherrar, dómarar, ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar í Stjórnarráði Íslands, prestar, prófastar, saksóknarar, sendiherrar og forstöðumenn ríkisstofnana.
Ráðið er skipað fimm ráðsmönnum og fimm til vara. Þrír eru kosnir af Alþingi, Hæstiréttur skipar einn og fjármála- og efnahagsráðherra einn. Kjararáð er skipað til fjögurra ára í senn. Núverandi ráðsmenn eru Jónas Þór Guðmundsson formaður, kosinn af Alþingi, Óskar Bergsson varaformaður, kosinn af Alþingi, Svanhildur Kaaber, kosin af Alþingi, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, skipaður af Hæstarétti, og Hulda Árnadóttir, skipuð af fjármála- og efnahagsráðherra.
Í lögum um kjararáð er kveðið á um að það skuli gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar.
Kjararáð skal taka mál til meðferðar þegar því þykir þurfa og ætíð ef orðið hafa verulegar breytingar á þeim launum í þjóðfélaginu sem höfð skulu til viðmiðunar samkvæmt lögum þessum eða á störfum þeirra sem úrskurðarvald þess tekur til.
Ákvörðunum og úrskurðum kjararáðs verður ekki skotið til annars stjórnvalds.
Í rökstuðningi kjararáðs fyrir ákvörðuninni nú kemur fram að afar mikilvægt sé að þjóðkjörnir fulltrúar séu fjárhagslega sjálfstæðir og engum háðir. Störf þeirra eigi sér ekki skýra hliðstæðu á vinnumarkaði enda séu þeir kjörnir til starfa í almennum kosningum og þurfi að endurnýja umboð sitt að minnsta kosti á fjögurra ára fresti.
Forseta Íslands, ráðherrum og þingmönnum hafi ekki verið ákvarðaðar sérstakar greiðslur fyrir vinnu utan hefðbundins dagvinnutíma, þrátt fyrir að störf þeirra fari að hluta til fram utan hans.
Þá er bent á að árið 2008 hafi kjararáði verið gert að lækka laun allra sem heyrðu undir ráðið um 5-15%. Við það hafi laun þingmanna lækkað um 7,5% og ráðherra um 14-15% frá 1. janúar 2009.
Þetta sé í fyrsta skipti sem kjararáð fjalli heildstætt um laun æðstu kjörnu fulltrúa landsins. Vísar ráðið til mats kjaradóms sem ákvað laun þeirra fram til ársins 2006, sem hafi talið eðlilegt að þingfararkaup væri það sama og laun héraðsdómara. Þingfararkaupið hafi um skeið verið lægra. Rétt sé að miða laun ráðherra við hæstaréttardómara.
Um forsetann segir kjararáð að rétt sé að hann verði áfram með hæstu laun æðstu embættismanna þjóðarinnar.
Fjármálaráðherra lagði fram frumvarp um breytingar á lögum um kjararáð í september en það var ekki tekið fyrir aftur á þinginu eftir að því hafði verið vísað til efnahags- og viðskiptanefndar eftir fyrstu umræðu.
Frétt Mbl.is: Verði færðir undan kjararáði
Frumvarpið kvað ekki á um breytingar á því hvernig laun þeirra sem heyra undir ráðið eru ákveðin heldur að fækka þeim starfstéttum sem undir það heyra. Þannig skyldu laun forstöðumanna ríkisstofnana, skrifstofustjóra Stjórnarráðsins, sendiherra, framkvæmdastjóra hlutafélaga í meirihlutaeigu ríkisins, biskups, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar ekki lengur heyra undir kjararáð.