Jafna laun þingmanna og dómara

Laun ráðherra verða eftir ákvörðun kjararáðs 1.826 þúsund á mánuði …
Laun ráðherra verða eftir ákvörðun kjararáðs 1.826 þúsund á mánuði og laun forsætisráðherra rúmlega tvær milljónir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingfararkaup hefur verið hækkað um 338 þúsund krónur á mánuði og verður rúmar 1.100 þúsund krónur, samkvæmt ákvörðun kjararáðs. Jafnframt hækka laun ráðherra og forseta Íslands um nálægt hálfri milljón á mánuði.

Laun þingmanna og ráðherra voru lækkuð á árinu 2009, eins og laun annarra sem undir kjararáð heyra, fyrir utan forseta. Þingmenn lækkuðu um 7,5% og ráðherrar um 14-15%. Fram kemur í ákvörðun kjararáðs að síðan hafa launin hækkað til samræmis við almennar ákvarðanir kjararáðs. Síðast hækkuðu launin 1. júní í sumar, um 7,15%.

Kjararáð telur rétt að miða þingfararkaup við laun héraðsdómara eins og áður var. Þingfararkaup hefur um skeið verið lægra og telur kjararáð rétt að jafna þann mun. Á sama hátt telur kjararáð rétt að laun ráðherra taki mið af launum hæstaréttardómara. Kjararáð telur að forseti Íslands eigi áfram að hafa hæstu laun þeirra sem kjararáð ákveður laun.

Þingfararkaupið hækkar um 44%

Laun forseta verða 2.985 þúsund krónur á mánuði. Laun ráðherra 1.826 þúsund og laun forsætisráðherra 2.022 þúsund kr. Laun þeirra sem þessum embættum gegna hækka um nálægt hálfri milljón á mánuði. Hlutfallslega hækka laun forseta minnst eða um 20%. Laun ráðherra hækka um rúm 35% en þingfararkaupið hækkar mest, eða um 44%.

Eftir að laun þingmanna voru lækkuð, 1. janúar 2009, voru þau 520 þúsund krónur. Þau eru nú um 1.100 þúsund kr., eða meira en tvöfalt hærri.

Lægri laun en nemur hækkun

Endurskoða á forsendur kjarasamninga í febrúar og sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, fyrir skömmu að það stefndi í forsendubrest. Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélags- og sjómannafélags Keflavíkur, segir að ákvörðun kjararáðs hljóti að gefa ákveðinn tón inn í þá endurskoðun. „Fólkið sem er að vinna á sjúkrahúsinu og aðrir eru að vinna á miklu lægri launum en nemur hækkuninni sem kjararáð ákveður. Fólkið spyr: Eru ekki líka til peningar fyrir okkur?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert