Leggja til að kanínum verði fækkað

Borgaryfirvöld vilja fækka kanínum í landi Reykjavíkur.
Borgaryfirvöld vilja fækka kanínum í landi Reykjavíkur. mbl.is/Styrmir Kári

Kanínur á tiltölulega afmörkuðu svæði í neðanverðum Elliðaárdalnum, norðvestan við Stekkjarbakka, hafa verið margar í allmörg ár og valdið ýmsum vandamálum.

Þetta segir í minnisblaði skrifstofu umhverfisgæða sem lagt var fyrir á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar á dögunum.

Lagðar eru til aðgerðir annars vegar til að fækka kanínum og hins vegar til að draga úr líkum á slysum vegna árekstra vegfarenda við kanínur. Umhverfis- og skipulagssvið er hvatt til að taka tillögurnar til vandlegrar skoðunar og finna ásættanlega lausn.

Um 70 kanínur í Elliðaárdal

Svæðið við neðanverðan Elliðaárdal hefur sérstöðu meðal svæða í borginni þar sem kanínur hafa sést. Það sannast með talningum sem fara fram síðla vetrar þegar stofninn er í lágmarki.

Árið 2012 fundust 55 kanínur á þessu væði og árið 2015 fundust um 70 kanínur. Til samanburðar fundust samtals færri en 10 kanínur á öðrum talningasvæðum, þ.e. í Öskjuhlíð, Heiðmörk og við Lambhaga.

Kanínum virðist ekki fara fjölgandi í borgarlandinu miðað við niðurstöður talninga en líklegt er að fjöldinn spanni nokkur hundruð dýr þegar hann er í hámarki.

Kanínurnar í neðanverðum Elliðaárdal hafa þá sérstöðu að íbúar og fólk sem heimsækir svæðið gefur þeim allan ársins hring.

Setja upp lága kanínuveggi

Lagt er til að kanínum á svæðinu verði fækkað með því að veiða ákveðinn fjölda kanína eða hlutfall á tilteknum tíma. Þá kemur einnig til greina að setja strangar reglur um að bannað sé að fóðra kanínurnar í Elliðaárdal. Setja þyrfti upp skilti og vera með fræðslu um málefnið.

Til að draga úr slysum vegna árekstra vegfarenda við kanínur þyrfti að setja upp varúðarskilti um kanínur fyrir hjólandi og akandi umferð til að draga úr líkum á árekstrum. Þá ætti einnig að útbúa lága, kanínuhelda girðingu meðfram aðreininni sem liggur frá Stekkjarbakka út á Reykjanesbraut en þar verða flestir árekstrar bíla við kanínur. Einnig er lagt til að hönnun hjólastíga taki tillit til hættu vegna kanína, til dæmis með því að hafa lága kanínuveggi meðfram stígnum á því svæði þar sem mest er af kanínum, með aukinni lýsingu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka