Frá 1. október 2006 hefur þingfararkaup hækkað frá 503.051 krónu í 1.101.194 krónur, eða um 119 prósent. Á sama tíma hafa laun ráðherra hækkað úr 902.813 krónum í 1.826.273 krónur, eða um 102 prósent.
Samkvæmt útreikningum mbl.is, eftir gögnum Hagstofunnar, var þingfararkaup á við 1,31 meðallaun fullvinnandi manns á Íslandi árið 2006.
Í kjölfar úrskurðar kjararáðs, sem birtur var á mánudag, er ljóst að þingfararkaup er nú á við um það bil 1,8 meðallaun Íslendings sé miðað við tölur Hagstofunnar fyrir síðasta ár, þar sem þau eru sögð 612 þúsund krónur hjá fullvinnandi manni.
Rétt er að geta þess að sú krónutala kann að vera enn hærri á þessu ári, sem minnka myndi bilið. En sömuleiðis kunna laun einstakra þingmanna að vera enn hærri en sem nemur þingfararkaupinu einu saman, þar sem við bætast greiðslur fyrir formennsku stjórnmálaflokks, þingflokksformennsku og nefndaformennsku, svo aðeins séu nefnd nokkur dæmi.
Á töflunni hér að ofan má glögglega sjá hvernig launabili þingmanna og almennra launþega háttar í völdum löndum Evrópu. Ítalía sker sig úr hvað varðar launamuninn, þar sem laun þingmanns eru á við 5,28 meðallaun hins almenna Ítala.
Neðst er þá Malta, þar sem aðeins rúmar rúmum tuttugu þúsund krónum á launum þingmanna og meðallaunum Maltverja.
Forsætisráðherra Íslands kemst nálægt því að vera launahæstur allra kollega sinna á Norðurlöndum, en aðeins forsætisráðherra Danmerkur slær honum við með 2.059.000 krónur í mánaðarlaun á meðan sá íslenski fær kr. 2.022.000. Forsætisráðherra Finnlands er launalægstur, með 1.353.000 krónur í mánaðarlaun.
Laun íslenskra þingmanna höggva þannig nærri launum forsætisráðherrans, en þeir eru launahæstir kollega sinna á Norðurlöndum með 1.101.194 krónur í mánaðarlaun. Þeim næstir koma þingmenn norska Stórþingsins með 1.035.000 krónur.