Þriggja ára átaki í endurgerð og malbikun gatna verður hleypt af stokkunum í Reykjavík. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun borgarinnar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti í gær.
„Við gerðum heildarúttekt á stöðu gatnakerfisins vegna þess að framkvæmdir og viðhald var skorið mjög niður 2009,“ segir Dagur í samtali við mbl.is.
„Við höfum verið að bæta í síðustu tvö ár en núna er komið heildarplan fyrir næstu ár. Við erum að auka það sem fer bæði í endurgerð gatna og ný yfirlög verulega,“ bætir borgarstjórinn við.
Hann segir áætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda verða kynnta betur á næstu dögum. Áætlanir gera ráð fyrir því að á annan milljarð króna verði varið í áðurnefndar framkvæmdir á næsta ári. „Þær voru í kringum 700 milljónir á þessu ári, þannig að við erum að tvöfalda þetta. Á þessu ári var samt mun meira lagt í verkefnið en gert var í tíð Sjálfstæðisflokksins eftir hrun,“ segir Dagur.