Rúða var brotin og einhvers konar sprengju var hent inn um glugga þegar eldur kviknaði í iðnaðarhúsnæði í Dalshrauni í Hafnarfirði aðfaranótt þriðjudags. Þetta staðfestir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
Eldur kviknaði um klukkan tvö aðfaranótt þriðjudags og var allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu sent á staðinn. Eldurinn kom upp á snyrtistofu í húsinu og var mikill eldur þar inni er slökkvilið kom á staðinn. Rúður brotnuðu og heyrðu slökkviliðsmenn litlar sprengingar inni í eldhafinu er þeir komu á vettvang.
Grímur telur ekki að um heimatilbúna sprengju hafi verið að ræða heldur virðist tívolíbombu hafa verið hent inn um glugga.
Ekki var tekið fram í tilkynningu lögreglu til fjölmiðla í gærmorgun vegna málsins að eldurinn hefði líklega kviknað út frá sprengju. Spurður hvers vegna það hefði ekki verið tekið svaraði Grímur því til að óvissa hafi ráðið því:
„Ég held að í upphafi í gærmorgun hafi menn ekki verið klárir á því hver eldsupptökin hafi verið.“
Hann vildi ekkert gefa upp um hvort ákveðnir aðilar væru til rannsóknar vegna málsins eða hefðu verið yfirheyrðir. „Við erum bara að vinna eftir þeim upplýsingum sem liggja fyrir í málinu. Rannsókn er í fullum gangi.“