Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við HR, segir að í prinsippinu sé það ekki gott ef Alþingi grípur inn í einstaka ákvarðanir sem eru teknar eftir lögum sem búið er að setja. Þetta segir hún spurð út í umræðu um að Alþingi eigi að grípa inn í ákvörðun kjararáðs um hækkun launa þingmanna, ráðherra og forseta.
„Alþingi hefur litið svo á að það þurfi að grípa inni i vegna stöðugleika á vinnumarkaði, á sama hátt og það hefur gripið inn í vinnudeilur til að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði, þannig að það er hefð fyrir því.“
„Hins vegar eru þessar ákvarðanir aftur og aftur mjög umdeildar, þannig að það er spurning hvort það vill gera það,“ segir Ragnhildur um Alþingi.
Hún tekur fram að Alþingi hafi gripið inn í árið 2006 er það felldi ákvörðun Kjaradóms um launahækkanir forseta og annarra embættismanna. Ragnhildur segir að lögin hafi reyndar verið öðruvísi á þessum tíma. Þá var það Kjaradómur sem tók ákvörðun en ekki kjararáð.
Héraðsdómari fór í mál gegn íslenska ríkinu eftir að það felldi ákvörðun Kjaradóms 2006. Taldi hann að löggjafarvaldinu hafi ekki verið heimilt að fella ákvörðun Kjaradóms og taldi hann sig eiga rétt á launum í samræmi við ákvörðun Kjaradóms. Niðurstaðan varð sú að lögin væru óskuldbindandi gagnvart honum.
Frétt mbl.is: Hefði ekki breytt ákvörðun launa nú
Í bréfi formanns Kjaradóms 23. desember 2005 til forsætisráðherra voru forsendur úrskurðar Kjaradóms raktar ítarlega í dómsmáli héraðsdómarans gegn ríkinu.
„Úrskurðir Kjaradóms vekja stundum umtal og jafnvel ólgu í þjóðfélaginu. Það er ekki ætlun Kjaradóms að gera slík. Kjaradómi er falið vandasamt og vanþakklátt verk og einsýnt að ekki líki öllum. Hins vegar vil ég hvetja til þess að menn rasi ekki um ráð fram í breytingum á þessu kerfi i hita leiksins. Nauðsynlegt er að finna aðferð til að ákvarða laun forseta, alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna sem sæmileg sátt getur verið um. Það þarf líka að huga að því að ríkið er á samkeppnismarkaði um hæfasta starfsfólkið.“
Frétt mbl.is: „Þetta er mjög mikil hækkun“
Spurð hvort staðan sé ekki snúin fyrir Alþingi í þessu máli varðandi inngrip í ákvörðun kjararáðs segir Ragnhildur tvær hliðar á þeim peningi.
„Annars vegar getur maður horft á að það sé erfitt fyrir Alþingi að grípa inn í kjaramál einstakra hópa vegna þess að það sé lagasetning sem beinist að einum hlut. Hins vegar er þetta staða sem Alþingi er oft í gagnvart mismunandi hópum, hvort sem er út af verkfallsaðgerðum eða til að tryggja stöðugleika,“ segir Ragnhildur en tekur fram að það geti reynst snúið ef Alþingi fjalli um sín eigin mál.
Trausti Fannar Valsson, dósent í stjórnsýslurétti við lagadeild Háskóla Íslands, sagðist í samtali við Morgunblaðið telja að með almennri lagasetningu geti Alþingi lækkað laun þingmanna og ráðherra til framtíðar.
Frétt mbl.is: Óljóst hversu langt Alþingi má ganga
Í tilvikinu sem núna er uppi yrði úrskurðurinn væntanlega ekki felldur úr gildi með lögum heldur yrði launakjörum annaðhvort breytt til framtíðar eða kjararáði falið að taka nýja ákvörðun um laun á grundvelli ákveðinna forsendna.
Eftir bankahrunið tók Kjararáð þá ákvörðun hinn 27. desember 2008 að laun alþingismanna skyldu lækka um 7,5% og laun ráðherra um 14-15% frá 1. janúar 2009. Launalækkunin var dregin til baka í desember 2011.
Frétt mbl.is: Laun embættismanna fryst í ár
Í fundargerð Kjararáðs sagði: „Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 148/2008 sagði að meginmarkmið frumvarpsins væri að draga úr útgjöldum ríkissjóðs á árinu 2009 til þess að mæta stórfelldum tekjusamdrætti vegna efnahagskreppunnar.“