Grunnskólakerfinu er að blæða út, að sögn trúnaðarmanns kennara í Vogaskóla. Ágúst Tómasson segir ljóst að kennarar hyggist ekki láta „troða sér inn í SALEK þrjátíu prósentin“ og segir Reykjavíkurborg þurfa að hætta að skýla sér á bakvið samninganefnd sveitarfélaga.
Kennarar í Vogaskóla sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þeir kröfðust þess m.a. að Reyjavíkurborg semdi umsvifalaust við kennara, um kjör sem væru í samræmi við menntun þeirra og störf.
Skólastarf sem standa ætti undir nafni yrði ekki rekið nema með vel menntuðum og ánægðum kennurum.
„Við erum tvisvar sinnum búin að fella samninga sem okkar félag hefur boðið uppá og við erum enn samningslaust. Sveitarfélögin skýla sér á bakvið samninganefnd sveitarfélaganna, sem er að reyna að troða okkur inn í SALEK þrjátíu prósentin. Og það er alveg sýnt að kennarar sætta sig ekki við það,“ segir Ágúst.
„Við viljum senda ábyrgðina á sveitarfélögin, Reykjavíkurborg, vegna þess að grunnskólakerfinu er að blæða út,“ bætir hann við.
Ágúst segir einsýnt að stefni í óefni, þar sem hundruð kennara hætta á hverju ári en innan við hundrað séu á fyrsta ári í grunnskólakennarafræðum. „Þessi þróun er hafin nú þegar; það eru þegar komnir leiðbeinendur hérna inn í störf kennara. Það er svona stóra myndin.“
Ákvörðun kjararáðs um laun ráðamanna var kornið sem fyllti mælinn, að sögn Ágústs.
„Auðvitað er það það sem ýtir við, en það ýtir líka við okkur að við felldum samninga í vor og við felldum samninga í september og það hefur ekkert gerst síðan, að okkur vitandi, annað en það að kennarafélagið hefur verið að fara í skóla og heyra í kennurum, hvað þeir vilja,“ segir hann.
„Okkur þykir alveg ljóst hvað kennarar vilja og það þurfi kannski ekki að leggjast í miklar rannsóknir um það. Við viljum bara hærra kaup.“
Í niðurlagi yfirlýsingar kennara Vogaskóla segir:
„Kennarar í Vogaskóla lýsa fullri ábyrgð á hendur skólayfirvalda í Reykjavík ef ekki tekst að halda úti eðlilegu skólahaldi í borginni á næstu dögum.“
Hvað þýðir þetta? Hyggja kennarar á aðgerðir?
„Það hefur verið rætt í hópi kennara að það þurfi að grípa til einhverra aðgerða, en það hefur svo sem ekkert komið í ljós hvaða aðgerðir það yrðu,“ svarar Ágúst.
En þær kæmu til með að trufla skólahald?
„Já.“
Ágúst leggur áherslu á að vandinn sé þríþættur.
„Það eru náttúrlega kjarasamningarnir sem gilda núna, það er þessi ábyrgð sveitarfélaganna á skólunum... Reykjavík ber ábyrgð á sínum skólum og hún verður að svara fyrr það, sem sagt fræðsluyfirvöld eða borgarstjórn, verður að svara fyrir það öðruvísi og á ábyrgarði hátt en að vísa í einhverja samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Og svo, það sem kemur náttúrelga öllum við, er það þessi stóra mynd; að ef þú horfir tíu ár fram í tímann er meðalaldur kennara kannski 58 ár og meirihluti þeirra eru konur, og þær eru búnar að semja frá sér kennsluafsláttinn og kenna kannski 26 tíma, og nýliðun er mjög lítil. Er þetta það sem við viljum byggja nýtt Ísland á, eða framtíðina?“
Yfirlýsing kennara Vogaskóla:
„Kennarar í Vogaskóla krefjast þess að Reykjavíkurborg semji strax við KÍ um kjör sem eru í samræmi við störf og menntun kennara. Kennarar hafa nú þegar fellt tvo samninga sem undir þá hafa verið bornir svo engum ætti að dyljast að þeir krefjast mun betri kjara en þar voru í boði.
Skólastarf sem standa á undir nafni verður ekki rekið nema með vel menntuðum og ánægðum kennurum. Nú er svo komið að menntuðum grunnskólakennurum fækkar ört vegna lítillar nýliðunar og kennarastéttin eldist. Það er á ábyrgð borgarstjórnar að koma í veg fyrir að þessi óheillaþróun haldi áfram í Reykjavík.
Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga fer með samningsumboð Reykjavíkurborgar í kjaradeilum hennar við kennara. Samninganefndin virðist hafa það eitt markmið í viðræðunum að fella launakjör þeirra undir svonefnt SALEK samkomulag ríkis, sveitarfélaga og aðila almenna vinnumarkaðarins. Innan þessa samkomulags mun skólunum blæða út, ekki hægt heldur hratt.
Kennarar í Vogaskóla lýsa fullri ábyrgð á hendur skólayfirvalda í Reykjavík ef ekki tekst að halda úti eðlilegu skólahaldi í borginni á næstu dögum.“
Yfirlýsing kennara Holtaskóla:
„Kennarar og aðrir fagmenn í Holtaskóla telja að hin gífurlega launahækkun sem Kjararáð hefur ákveðið til handa alþingismönnum, ráðherrum og forseta Íslands segi sína sögu um að vilji og geta til launahækkana í þjóðfélaginu er langt umfram það sem m.a. grunnskólakennurum og fleirum hefur verið boðið. Grunnskólakennarar hafa verið samningslausir síðan í vor og tvívegis hafnað nýjum kjarasamningi þar sem einungis var í boði launahækkun sem rúmast innan SALEK rammans. Kennarasambandið er ekki hluti af SALEK og við kennarar sættum okkur ekki við að semja á forsendum þess.
Ef sveitarfélögin telja sig ekki hafa efni á að leiðrétta laun okkar grunnskólakennara ber ríkinu að auka tekjumöguleika þeirra eða að taka við rekstri grunnskólanna á ný.
Við bendum á að um miðja síðustu öld voru laun alþingismanna miðuð við laun kennara. Við förum fram á að það viðmið verði tekið upp að nýju m.a. í ljósi þess að nú er krafist fimm ára háskólanáms til kennararéttinda en áður voru kennarar ekki háskólamenntaðir.
Kennarar í Holtaskóla lýsa yfir vilja sínum til að taka þátt í aðgerðum sem samtök okkar standa fyrir til að þrýsta á um launahækkanir og kjarasamninga.“
Ályktun kennara Ölduselsskóla:
„Kennarar við Ölduselsskóla hafa þungar áhyggjur af faglegu starfi grunnskóla ef ríkisvald og sveitarfélög bregðast ekki við þeirri grafalvarlegu stöðu sem komin er upp innan grunnskóla landsins
Nýliðun grunnskólakennara er lítil sem engin, stéttin eldist hratt og ungt fólk leitar í önnur störf. Ástæður þessa eru margvíslegar. Launin eru hraksmánarleg, duga ekki til framfærslu og eru engan veginn í takti við það álag, ábyrgð og þá faglegu vinnu sem kennarar reiða af hendi. Kennarar eru helst á pari við niðursetninga fyrri tíma, þeir eru ekki matvinnungar fyrir sig og sína.
Þá eru starfsaðstæður óviðunandi þar sem alltof fáir starfsmenn eru til að sinna þeim margvíslegu og flóknu verkefnum sem grunnskólinn fæst við. Afleiðingarnar eru m.a. óviðunandi langtíma veikindi innan kennarastéttarinnar. Skóli án aðgreiningar krefst meiri mannafla og þekkingar, þeir þættir fylgdu ekki með þegar skólanum var gert að taka við nemendum sem áður var sinnt á stofnunum með mun meiri mannafla. Grunnskólinn er stærsta félagsmálastofnun samfélagsins. Mikill tími og orka fer í vinnu með félagslegan, tilfinningalegan og námslegan vanda nemenda. Þessi verkefni hafa orðið sífellt stærri hluti af störfum kennara. Nú er svo komið að verkefnin eru vaxin skólanum yfir höfuð og orðin óviðráðanleg. Ríki og sveitarfélög eru þannig víða að brjóta lög á nemendum með sérþarfir, þ.e. þeir fá ekki þá þjónustu sem lög og reglur kveða á um.
Ríkisvaldið færði grunnskólanum nýja aðalnámskrá og innleiðing hennar er flókin, viðamikil og tímafrek. Hugsa þarf allt námsmat og skipulag kennslu upp á nýtt. Þeirri vinnu verður ekki að óbreyttu bætt ofan á önnur störf sem þegar eru að sliga kennara.
Kennara hafa í áraraðir bent á stöðu grunnskólans og barist fyrir úrbótum fyrir nemendur sína. En sveitarfélögin hafa þverskallast við að hlusta en ala í staðinn á tortryggni í garð kennara.
Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur tekið af allan vafa um að sveitarfélögin ráða ekki lengur við verkefnið sem grunnskólinn er. Það væri því ábyrgðarleysi af hálfu ríkisvaldsins að grípa ekki inn í þær aðstæður.
Kennarar við Ölduselsskóla skora á ríki og sveitarfélög að bregðast ekki börnum þessa lands. Standið nú við stóru orðin og sýnið að ykkur er alvara með því að menntum og velferð barna okkar skipti máli. Þar er ábyrgð ríkisvaldsins mikil.“
Ályktun kennara Síðuskóla:
„Við fordæmum ákvörðun Kjararáðs um þær miklu launahækkanir sem þeir hafa úthlutað ákveðnum starfsstéttum. Við teljum þessa ákvörðun siðferðislega ranga og ýta undir ójöfnuð í samfélaginu. Um leið lýsum við yfir megnri óánægju með þá stöðu sem launamál grunnskólakennara eru í. Ákvörðun Kjararáðs er eins og blaut tuska framan í samningslausa grunnskólakennara og allan almenning.
Kennarar hafa verið samningslausir í marga mánuði og ein ástæða þess er svokallað SALEK-samkomulag. Okkur er ítrekað tjáð að ekki megi fara út fyrir rammasamkomulagið og því er ekki komið til móts við launakröfur okkar. Grunnskólakennurum er bent á að þeir ógni stöðugleika í samfélaginu með launakröfum sínum sem eru þó töluvert lægri en síðasta ákvörðun Kjararáðs um launahækkanir.
Vegna lengingu námsins, úr þremur í fimm ár, er endurnýjun í grunnskólakennarastéttinni lítil og innan fárra ára stefnir í óefni. Kröfur á kennara aukast í sífellu og vinnuálag eykst án þess að nokkur launaumbun, eða rýmri tími til að vinna það sem bætt er á kennara, komi á móti. Flótti úr stéttinni er staðreynd og verði ekkert að gert fækkar grunnskólakennurum enn frekar.
Fjárframlög frá ríkinu duga ekki sveitarfélögunum og þarf að bregðast við því.
Mikilvægt er að leggja áherslu á gott vinnuumhverfi, góð laun og ánægt starfsfólk innan grunnskólanna sem er vinnustaður æskunnar og þeirra sem móta framtíðina.“